6975466-end-of-the-world

Háværir orðrómar um það að heimsendir sé í nánd ekki seinna en í september hafa verið víða á internetinu undanfarið. Þið getið þó haldið ró ykkar því samkvæmt NASA eru orðrómarnir uppspuni.

Orðrómurinn var sá að á milli 15. og 28. september kæmi loftsteinn til með að lenda á Jörðu nálægt Puerto Rico og þurrka út líf á Jörðu á nokkrum mánuðum.

Orðrómar sem þessir skjóta reglulega upp kollinum og breiðast út með ógnarhraða á internetinu. Í þessu tilfelli var það samsæriskenningarsíðan InfoWars sem ýtti undir orðróminn, samkvæmt Kelsey Campbell-Dollaghan hjá Gizmodo.

Vegna þess hve hávær orðrómurinn var orðinn hefur NASA gefið út fréttatilkynningu til að róa áhyggjufulla jarðarbúa. Í fréttatilkynningunni kemur meðal annars fram að aðeins eru 0,01% líkur á því að einhver af þeim 12.992 fyrirbærum í geimnum sem þekkt eru og talið er að gætu hugsanlega ógnað Jörðu lendi hér á næstu 100 árum. Pau Chodas, starfsmaður NASA, sagði einnig í fréttatilkynningunni að enginn vísindalegur grundvöllur væri fyrir orðrómnum og að ekkert benti til þess að loftsteinn stefni á jörðina.

Það er því nokkuð ljóst að íbúar Jarðar geti sofið rólega – að minnsta kosti þar til næsti orðrómur skítur uppi kollinum.