Screen Shot 2016-08-16 at 22.03.53

Enn heldur árið 2016 áfram að slá hitamet og hefur NASA nú tilkynnt að júlímánuður hafi verið sá heitasti síðan mælingar hófust. Þetta er tíundi mánuðurinn í röð sem slær hitamet samkvæmt NASA.

Svipaða sögu er að segja um niðurstöður Bandarísku Hafrannsóknarstofnunarinnar (NOAA) en samkvæmt þeim hafa síðustu 14 mánuðir slegið hitamet. NOAA hefur ekki enn gefið út gögn fyrir júlí.

Heitasti mánuðurinn og heitasta árið
Júlímánuður var sérstakur að því leiti að mánuðurinn var ekki aðeins heitasti júlímánuður síðan mælingar hófust heldur heitasti mánuðurinn á heildina litið.

Miðað við niðurstöðurnar það sem af er ári eru nú yfirgnæfandi líkur á því að árið 2016 verði það heitast síðan mælingar hófust þó ekki verði hægt að skera úr um það fyrr en eftir áramót.

Hlutverk El Niño
David Karoly, sérfræðingur í loftslagsvísindum hjá University of Melbourne, benti á í samtali við Guardian að El Niño hafi átt stóran þátt í þessari miklu hlýnun.

Þó að El Niño sé nú lokið gætir áhrifanna í þrjá til sex mánuði eftir lok þess. Búast má við því að hitametin hætti að vera slegin á seinni mánuðum ársins, að sögn Karoly.

Enn efast þó sumir
Þrátt fyrir að mikill meirihluti sérfræðinga hafi fyrir löngu sammælst um að hlýnun jarðar sé raunverulegt vandamál eru enn þeir sem efast um það. Sumir ganga svo langt að efast um ágæti gagnanna frá NASA, líkt og sjá má í myndbandinu hér að neðan.