Mynd: The Telegraph
Mynd: The Telegraph

Þó sumarið hér á Íslandi hafi verið dásamlegt og það gleðji margan manninn að komast út fyrir hússins dyr einungis á peysunni þá er veðrið sem við höfum upplifað síðastliðna mánuði líklega afleiðing síður gleðilegra atburða sem eru að eiga sér stað allt í kringum okkur og kallast hnattræn hlýnun.

Að meðaltali er hitastig síðustu tólf mánuða það hæsta sem mælst hefur síðan mælingar hófust og því miður erum við að sjá þetta met slegið í hverjum einasta mánuði, sem þýðir að hver einasti mánuður er hlýrri en sami mánuður síðasta árs.

The Guardian greindi frá þessu og vísar í mælingar frá University of York. Skýringin á þessum hækkandi hitatölum er að miklu leyti sú að hitinn á pólsvæðunum hækkar nú umtalsvert hraðar en hitastig annars staðar í heiminum, að meðaltali. Þetta þýðir líka að jöklarnir bráðna hraðar en það getur haft ófyrirséðar afleiðingar.

Mikil bjartsýni er meðal þjóðarleiðtoga heims eftir loftslagsráðstefnuna sem haldin var í París í lok síðasta árs, en þar voru háleit markmið sett um stöðvun loftslagsbreytinga. Það er ljóst að við verðum að halda vel á spilunum til að ná þessum markmiðum þar sem allir þurfa að leggjast á eitt, meira að segja þær þjóðir þar sem stærstur hluti stjórnmálamanna reynir enn að þræta fyrir þá staðreynd að hnötturinn okkar sé að hlýna.