Mynd: Treehugger
Mynd: Treehugger

Margir líta á Amazon skóginn sem eitt af síðustu vígjum náttúrunnar, sem vð mannfólkið erum nú hægt og rólega að eyðileggja og yfirtaka. Skógurinn hefur verið að þróast jafnlengi og líf hefur verið á þurru landi, eða hvað? Innan fræðasamfélagsins telur fólk ýmist að skógurinn sé eins ósnortinn og náttúran verður, meðan aðrir halda því fram að mannskepnan hafi nú þegar sett sitt mark á ósnortin svæði.

Í nýrri rannsókn sem birtist í Science koma fram gögn sem benda til þess að stór hluti svæðisins er í raun manngerður af frumbyggjum sem byggðu skóginn löngu áður en Evrópskir landkönnuðir námu land í Suður Ameríku.

Rannsóknarhópurinn sem stendur á bak við greinina samanstendur af t.d. mannfræðingum, fornleifafræðingum og líffræðingum. Hópurinn skoðaði algengi 85 trjátegunda sem vitað er að frumbyggjar svæðisins nýttu, á stórum hluta Amazon svæðisins. Gögn varðandi tegundasamsetningu voru samkeyrð með gögnum mannfræðinga og fornleifafræðinga til að sjá hvernig dreifing tegundanna samsvaraði búsetu á svæðinu.

Í ljós kom að tegundir sem vitað er að fólk nýtti, fyrir hundruðum ára, eru margfalt algengari við gömul búsetusvæði en aðrar tegundir. Það sama gildir einnig um svæði sem ekki er vitað til að hafi verið nýtt til búsetu, en þar voru nytjaplöntur um fimmfalt algengari. Þetta gildir m.a. um plöntur sem gefa af sér kakó, açaí og brasilíuhnetur. Að auki var fjölbreytni innan þessara tegundahópa meiri en annarra plantna, sem bendir til þess að þær hafi lengi verið að þróast innan svæðanna.

Þessar niðurstöður renna stoðum undir þær kenningar að mannskepnan hefur haft áhrif á framgang Amazon skógarins lengur en við höfum mögulega gert okkur í hugarlund. Niðurstöðurnar eru sérlega sterkar í ljósi þess að hér er notast við gögn úr mörgum óskyldum greinum. Aðferðafræði þar sem óskyldum greinum er blandað saman er sífellt að verða vinsælli og gefa þær oft mjög áhugaverðar niðurstöður og nýja sýn á hlutina.