screen-shot-2016-10-15-at-20-21-55

Lífrænn matur nýtur aukinna vinsælda meðal annars vegna strangari reglna um notkun eiturefna cið lífræna ræktun. Margir telja augljóst að lífræn matvæli séu betri fyrir bæði umhverfið og okkur sjálf. En er það svo?

Skilgreiningin á lífrænu grænmeti og ávöxtum er að matvælin séu ræktuð án notkunar á tilbúnum áburði eða skordýraeitri. Skilgreiningin er þó nokkuð misvísandi því í lífrænni ræktun má notast við skordýraeitur að því gefnu að það náttúrulegt.

Náttúrulegt þarf þó ekki að þýða betra og hafa rannsóknir meðal annars sýnt fram á að þau efni sem samþykkt eru til notkunar á lífrænum matvælum geti sum jafnvel verið skaðlegri en tilbúin efni.

Rannsókn sem gerð var árið 2012 sýndi einnig fram á að uppskera lífrænnar ræktunar sé að meðaltali 25% minni en hefðbundinnar ræktunnar. Samkvæmt þeim niðurstöðum þarf því almennt að nýta meira landsvæði undir lífræna ræktun en þá hefðbundnu með tilheyrandi umhverfisáhrifum.

Hvað varðar heilsu okkar þá leiddi greining á 2.700 rannsóknum í ljós að lífræn matvæli eru ekki næringarríkari en hefðbundin matvæli. Þess skal þó getið að erfitt er að gera nákvæma greiningu á áhrifum á heilsu þar sem flestir borða lífræn og ólífræn matvæli í bland.

Svarið við því hvort lífræn eða ólífræn matvæli séu betri er því flókið og er ekki hægt að svara því með afgerandi hætti. Í myndbandinu hér að neðan má hins vegar fræðast enn frekar um muninn á lífrænum og ólífrænum matvælum.