Mynd: Weekly
Mynd: Weekly

Að vera „vegan“ snýst ekki eingöngu um það að hætta að borða kjöt heldur þýðir það að viðkomandi neytir engra afurða úr dýraríkinu, eins og mjólkurafurða, eggja eða hunangs. Reyndar virðist vera ómögulegt að vera „vegan“ á Íslandi, þar sem erfitt hefur reynst að finna gott íslenskt orð yfir fyrirbærið.

Engu að síður er ákveðinn hópur Íslendinga sem lætur tungumálið ekki standa í vegi fyrir sér og stundar þennan lífstíl af heilum hug. Margar ástæður geta legið þar að baki og nefna margir að með því að neyta minna af dýraafurðum þá spörum við umhverfið okkar, sem dæmi með því að spara vatn, orku og minnka losun gróðurhúsalofttegunda. En er það raunverulega betra fyrir umhverfið að búa til grænmeti ofan í mannfólkið en kjöt?

Ný rannsókn sem unnin var við Carnegie Mellon University og birtist í Environment Systems and Decisions í nóvember bendir til þess að svo sé ekki. Í rannsókninni er tekið tillit til vatnsnotkunar, orkunotkunar og losun gróðurhúsalofttegunda við ræktun á matvælum úr jurta- og dýraríkinu. Til að bera saman máltíð sem inniheldur kjöt annars vegar og grænmeti hins vegar notar vísindahópurinn kaloríuinnihald máltíðarinnar. Í mörgum öðrum rannsóknum er ekki miðað við kaloríuinnihald heldur vigt máltíðarinnar. Sé hins vegar horft á orkuna sem einstaklingur þarf að innbyrða þá kostar það umhverfið meira að búa til grænmetismáltíð en kjötmáltíð.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð, það er til dæmis misjafnt eftir gerð grænmetis hversu mikla vatns- eða orkunotkun þarf til og hversu mikið af gróðurhúsalofttegundum er losað, það sama má segja um mismunandi tegundir af kjöti. Að auki má vel færa rök fyrir því að kaloríuinntaka fjölda fólks á vesturlöndum sé vel yfir því sem hún þarf að vera og það gæti sparað umhverfinu heilmikla orku og vatn og gæti minnkað losun gróðurhúsalofttegunda ef við værum meðvitaðri um það hversu margar kaloríur við þurfum raunverulega að nota.

Það sem rannsóknahöfundar eru aðallega að benda á með þessari rannsókn sinni er að það er ekki endilega hægt að segja að allt grænmetisfæði sé alltaf umhverfisvænna en allar kjötmáltíðir, slíkt fer eftir innihaldi máltíðarinnar. Það væri því kannski sniðugt ef við færum jafnvel að horfa umhverfisvænni augum á matinn okkar og reyna að borða bara það sem við þurfum á að halda, í staðinn fyrir að setja umfram orku í forðabúrið, á kostnað umhverfisins.