Mynd: Anita Stizzoli/Getty Images
Mynd: Anita Stizzoli/Getty Images

Hundar eru oft sagðir vera besti vinur mannsins en niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að geitin gæti veitt hundinum harða samkeppni í þeim efnum.

Geitur hafa fylgt manninum í um 10.000 ár en hafa hingað til fremur verið talin til húsdýra en gæludýra. Þar til nú hafa vísindamenn almennt talið að það séu einungis dýr sem sérstaklega hafi verið ræktuð sem gæludýr sem geta myndað tengsl við menn. Niðurstöður vísindamanna við Queen Mary University í Bretlandi benda nú þvert á móti til þess að geitur séu eins gáfaðar og hundar og jafn færar í að mynda tengsl við menn og algeng gæludýr.

Meðal niðurstaða rannsóknarhópsins voru að geitur horfa ákaft í augu eigenda sinna þegar þær reyna að framkvæma ákveðin verkefni. Þetta gera hundar einnig en rannsóknir hafa sýnt að úlfar sýna ekki þennan eiginleika.

Í rannsókninni voru 34 geitur þjálfaðar til að fjarlægja lok af boxi og fengu þær fyrir það verðlaun. Geiturnar voru látnar leysa verkefnið oft en loks var prófað að gera lokið svo að ómögulegt væri að fjarlægja það. Viðbrögð geitanna voru síðan skráð.

Í ljós kom að geiturnar beindu athygli sinni að þeim sem framkvæmdi tilraunina þegar þeim gekk ekki að opna boxið. Athygli vakti að þegar manneskjan sneri að þeim horfðu þær lengur á hana en þegar hún sneri frá þeim. Þessi hegðun bendir til þess að geiturnar hafi verið meðvitaðar um það hvert manneskjan var að horfa og breyttu hegðun sinni samkvæmt því. Þetta hefur áður verið talin hegðun sem aðeins hundar, ketti og hestar sýna.

Fyrri rannsóknir rannsóknarhópsins hafa bent til þess að geitur séu gáfaðri en áður hefur verið talið en þessi nýbirta rannsókn sýnir að þær geti í ofanálag haft samskipti við menn. Niðurstöðurnar sýna ekki aðeins að geitur gætu hentað sem gæludýr heldur einnig að sambúð með mönnum geti haft meiri áhrif á tegundir en áður hefur verið talið.

Greinin var birt í tímaritinu Biology Letters.