Mynd: PBS.org
Mynd: PBS.org

Á hverju ári notar mannkynið um 343 milljón tonn af plasti og leita vísindamenn sífellt nýrra lausna til að berjast gegn uppsöfnun á því í náttúrunni. Nú hefur rannsóknarhópur við Kyoto Institute of Technology og Keio University uppgötvað bakteríutegund sem getur brotið niður PET plast, sem er til dæmis notað í plastflöskur. Niðurstöðurnar rannsóknarinnar voru birtar í Science á dögunum.

Bakterían fannst við skoðun á 250 sýnum af PET leifum sem safnað var í urðunarstöðum fyrir plast. Hún hefur fengið latneska heitið Ideonella sakaiensis 201-F6 og getur, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarhópsins, brotið niður þunnar PET filmur á aðeins 6 vikum við 30ºC. Til þess að brjóta niður plastið notar bakterían tvö ensím en eftir niðurbrotið myndast terephathalic sýra og ethylene glýkól sem bæði eru skaðlaus umhvefinu.

Niðurstöðurnar eru sérstaklega merkilega fyrir þær sakir að vísindamennirnir telja að bakterían hafi komið fram á sjónarsviðið nokkuð nýlega, enda hefur PET plast aðeins verið til í um 70 ár.

Þrátt fyrir þessar jákvæðu niðurstöður rannsóknarhópsins eru ekki allir sammála um gagnsemi þeirra. Bent hefur verið á að aðferðin sé ekki nógu hagkvæm til að berjast gegn plastuppsöfnun í heiminum og hefur Tracy Mincer við Woods Hole Oceanographic Institution sagt að hann sjái ekki hvað þessi lausn hafi framyfir það bræða PET plast til endurvinnslu.

Mincer er þó nokkuð bjartsýnn á framhaldið enda gæti uppgötvunin leitt til uppgötvunar á fleiri plastétandi bakteríum í framtíðinni sem kunna að nýtast betur í þessum tilgangi.