large-herbivores-verge-extinction

Það hefur varla farið framhjá neinum að sífellt fleiri dýr komast á lista yfir dýr í útrýmingarhættu. Ástæðuna má meðal annars rekja til hlýnunar jarðar og ágangs manna á búsvæði dýra. Nú hafa niðurstöður nýrra rannsóknar verið birtar í Science Advances sem benda til þess að stórir grasbítar séu í meiri hættu en áður var talið.

Í rannsókninni voru 74 stærstu tegundir grasbíta skoðaðar með tilliti til þess hvernig staða þeirra væri á heimsvísu. Eins og svo oft vill vera með rannsóknir af þessu tagi voru niðurstöðurnar síður en svo jákvæðar. Í ljós kom að um 60% tegundanna eru í útrýmingarhættu.

Fækkun stórra grasbíta kann að hafa hræðilegar afleiðingar fyrir vistkerfi enda spila þessar tegundir mikilvægt hlutverk í vistkerfinu. Dýrin borða mikið af plöntum sem annars myndu safnast upp og að lokum leiða til skógarelda. Stórir grasbítar hjálpa einnig til við að dreifa fræjum plantna og ekki má gleyma því að þær eru miklivæg fæða fyrir rándýr eins og ljón og önnur kattardýr.

Vísindamenn og aðrir umhverfissinnar vona að stjórnvöld bregðist skjótt við og setji verndun dýrategunda í forgang svo við töpum ekki þeim mikla fjölbreytileika sem er til staðar í náttúrunni.