hyena

Hefur félagsleg staða áhrif á heilsu okkar? Það er augljósast að benda á að bág félagsleg og fjárhagsleg staða getur verið streituvaldur. Nú hefur ný rannsókn sýnt fram á að dýr sem eru hátt sett í goggunarröðinni eignast fleiri afkvæmi, lifa lengur og að auki virðast halda betri heilsu.

Rannsóknin sem unnin var við Michigan State University var gerð á villtum hýenum í Kenía sem innihélt alla hópa hýenusamfélagsins. Vísindahópurinn sem var stjórnað af Mark F Haussmann, tók blóðprufur úr hýenunum á nokkrum tímapunktum á æviskeiði þeirra og skoðuðu telómera hýenanna.

Telómerar eru endar litninganna, við hverja skiptingu styttast telómerarnir þess vegna getur hver frumua bara skipt sér ákveðið mörgum sinnum, því að lokum fer styttingin að klippa af genum á endum litninganna. Þegar telómerarnir verða of stuttir fara frumurnar því í það sem kallast öldrunarfasi. Frumur í öldrunarfasa eru hættar að skipta sér, en þær fara samt sem áður ekki í stýrðan frumudauða. Þær eru með öðrum orðum aldraðar frumur sem safnast upp í líkamanum og gera okkur gömul.

Við rannsóknina kom í ljós að telómerar hýena af hærri stigum voru marktækt lengri en telómerar hýena af lægri stigum. Goggunarröð hýenanna hafði því áhrif á aldurstengda kvilla hjá dýrunum. Hugsanleg skýring á þessu er að því hærra sem hýena er sett því betri mat fær hún og að auki sleppur hún við streituvaldandi þætti eins og að veiða og passa uppá arðræningja.

Líklegt þykir að samsvarandi niðurstöður mætti finna í öðrum spendýrum, þ.m.t. manninum.