atlantic salmon

Laxveiðar eru vinsælt áhugamál og eru margir Íslendingar sem leggja á sig ferðalög síðsumar og að hausti til að njóta náttúrunnar um leið og þeir veiða í matinn. Laxinn er talinn heimakær fiskur, þ.e.a.s. hann snýr alltaf aftur í ánna þar sem hann ólst upp en milli þess sem hann hangir heima fer hann í ferðalög um heiminn.

Nýlega birtist rannsókn í Canadian Journal of Fisheries and Aqiatic Science sem unnin var við Veiðimálastofnun af Sigurði Guðjónssyni, Sigurði M. Einarssyni, Inga R. Jónssyni og Jóhannesi Guðbrandssyni.

Í rannsókninni er fylgst með ferð laxaseiða sem merkt voru með síritum sem mæla bæði hita og dýpi. Laxaseiðin voru merkt og þeim sleppt vorin 2005 og 2006 í Kiðafellsá í Kjós. af þeim tæplega 600 seiðum sem var sleppt náðu 7 aftur til baka og liggja mælingar úr síritum þessara seiða til grundvallar rannsókninni.

Gögnin úr síritunum sýna hitastig og dýpi þar sem fiskarnir höfðu haldið sig hverju sinni, en síritinn skráði mælingu á klukkustundar fresti. Þessi gögn voru svo borin saman við gagnagrunna sem til eru um hitastigsmælingar sjávar til að reyna að staðsetja laxana hverju sinni. Með þessu móti var hægt að skrá ferð laxanna frá því þeim var sleppt og þar til þeir snéru aftur.

Í ljós kom að laxarnir ferðuðust aðallega sunnan og vestan við Ísland en ferðast svo um vetrartímann langleiðina til Færeyja áður en þeir snéru heim. Líklega er ferðalag fiskanna hægt að skýra með fæðuframboði og umhverfisaðstæðum í sjónum, svo sem hitastigi, en bæði laxinn og fæðan hans vilja vera við sitt kjöthitastig.

Að undanförnu hefur laxastofninn minnkað töluvert og helsta ástæðan fyrir því er talin dauði laxins á meðan á sjódvöl hans stendur. Með rannsóknum sem þessum þar sem fylgst er með ferðalögum fiskanna er mögulega hægt að finna hvort einhver umhverfisþáttur sé að hafa afgerandi áhrif á lifun fiskanna.

Í myndbandinu hér fyrir neðan, sem fengið er að vefsíður Veiðimálastofnunar er hægt að skoða ferðalög fjögurra seiða, þá er ferðalagið táknað með litum þar sem rauði liturinn táknar líklegustu staðsetninguna.