finches

Flestir þekkja söguna um hvernig Darwin uppgötvaði hið merka fyrirbæri þróun. Hann rannsakaði fugla sem kallast finkur og voru upprunnar á Galapagoseyjum. Upphaflega hélt Darwin að um margar fuglategundir væri að ræða þar sem eiginleikar fuglanna voru svo ólíkir en síðar kom í ljós að ólíkir eiginleikar voru tilkomnir vegna náttúrulegs vals og afleiðingum þess sem er þróun.

Undanfarin ár hafa aðstæður á Galapagos breyst með innrásum rándýra og sníkjudýra í lífkerfið. Finkurnar, sem Darwin eyddi drjúgum tíma við að rannsaka, lifa nú því miður ekki jafn góðu lífi á Galapagoseyjum og áður. Vísindamenn við Charles Darwin stofnunina telja að stofn Mangrove finkanna telji ekki nema 80 finkur á einkar litlu skógarsvæði.

Stofnunin hefur barist við að halda stofninum gangandi en það hefur því miður ekki skilað tilætluðum árangri. Þess vegna setti stofnunin af stað verkefni í samstarfi við San Diego dýragarðinn þar sem finku-ungar eru teknir í fóstur í dýragarðinum og síðan þegar þeir eru orðnir nægilega þroskaðir til að flýja rándýr og verjast sníkjudýrum eru þeir fluttir aftur til Galapagoseyja. Verkefnið hófst síðastliðið sumar og nú þegar hafa 23 ungar verið fluttir úr dýragarðinum til Galapagoseyja, og virðast ætla að dafna vel. Þó þessar aðgerðir dugi varla til lengri tíma við vonast vísindahópurinn til þess að kaupa sér tíma til að hugsa upp langtímaáætlanir.

Mel White skrifaði áhugaverðan pistil um aðgerðir Charles Darwin stofnunarinnar og San Diego dýragarðsins gegn útrýmingu fuglanna í National Geographic á dögunum, en þar má einnig lesa sér til um rannsóknir Darwins.