Mynd: A&J Visage, Alamy
Mynd: A&J Visage, Alamy

Fiskar eru af fáum taldir til gáfaðra dýra. Gott dæmi um það er hin lífseiga mýta um að gullfiskar hafi aðeins þriggja sekúndna minni. Sú mýta á að vísu ekki við rök að styðjast en segir sitt um trú okkar á gáfur þeirra. Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda nú til þess að fiskar séu gáfaðri en almennt er talið og geta þeir jafnvel þekkt í sundur mannsandlit, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar.

Í rannsókninni rannsökuðu vísindamenn í Bretlandi og Ástralíu tegund sem nefnist skotfiskur. Tegundin er þekkt fyrir þann hæfileika að geta sprautað vatni úr munninum á sér af miklum krafti og nýtir þennan hæfileika til að veiða sér skordýr til matar.

Fyrsta verk vísindamannanna var að sýna fiskunum tvö mismunandi andlit mannfólks. Þegar fiskarnir spýttu vatni að öðru andlitinu fengu þeir fóður sem verðlaun en ekki ef þeir spýttu því að hinu. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar tók það aðeins 2-14 skipti þar til fiskarnir vissu hvort andlitið borgaði sig að spýta vatni á.

Vísindamennirnir prófuðu einnig hversu vel fiskarnir þekktu andlitið, meðal annars með því að sýna 44 mismunandi andlit í einu og með því að breyta birtustigi og litum myndanna. Þótt ótrúlegt megi virðast tókst fiskunum að þekkja rétt andlit í 77-89% tilfella.

Í greininni benda vísindamennirnir á að ekki sé hægt að draga ályktanir útfrá þessu að fiskar noti sömu aðferðir og við mannfólkið til að þekkja sundur andlit. Vísindamennirnir ætla að þessi eiginleiki fiskanna gæti verið mikilvægur liður í því að þekkja fæðu, rándýr og maka í náttúrunni.

Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Scientific Reports en hér að neðan má sjá hvernig rannsóknin var framkvæmd.