Tree-for-web-rect-1414x1000

Ávextir vaxa á trjám, eins og við vitum. Tilgangur ávaxtanna er ekki að fóðra mennina, þó það virðist rökrétt ástæða, heldur er tilgangur þeirra að koma fræjum trjánna á nýja staði svo trén geti fjölgað sér og sprottið á nýjum stað.

Þetta tré sem við sjáum í myndbandinu hér að neðan er ekkert venjulegt tré, það getur borið 40 mismunandi ávexti.

Svona tré vex ekki upp af neinu fræi en með hjálp manna og náttúrunnar hefur verið hægt að búa til svona fjölhæft tré. Tré eru sérstökum hæfileikum gædd, ef grein af einu tré er skeytt saman við stofn af öðru tré, þá renna trén saman og greinin fer að nota næringuna sem kemur í gegnum stofninn. Það mætti segja að um nokkurs konar greina-ágræðslu sé að ræða og hér þarf engin ónæmisbælandi lyf til, vegna þess að trén reyna ekki að streitast á móti því að mynda eina lífveru.

Vegna þess að tréð er samsett úr mörgum mismunandi plöntum þá blómstrar það á mismunandi tímum og gefur ávexti á mismunandi tímum. Maðurinn sem stendur á bak við þetta er Sam Van Aken og hefur hann komið sambærilegum trjám fyrir á nokkrum mismunandi stöðum. Það er örugglega þess virði að reyna að berja eitt slíkt tré augum við tækifæri.