Mynd: IBTimes UK
Mynd: IBTimes UK

Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin, IUCN, standa fyrir ráðstefnu á Hawaii dagana 1. til 10. september sem ber yfirskriftina “Planet at the crossroads” eða Pláneta á krossgötum. Meðal þess sem farið er yfir á ráðstefnunni er það hvernig dýrategundum heimsins gengur að fóta sig á meðan heimkynni þeirra verða fyrir áhrifum manna.

Fyrstu dagar ráðstefnunnar færa okkur bæði góðar og slæmar fréttir. Góðu fréttirnar eru þær að pandabirnir eru ekki lengur talidir til dýra í útrýmingarhættu, þær slæmu eru að fjórar af sex tegundum mannapa eru nú taldar vera í bráðri útrýmingarhættu.

Einu skrefi frá útdauða
Þær tegundir mannapa sem teljast nú til tegunda í bráðri útrýmingahættu eru austurgórillur, vesturgórillur og bæði Borneó og Súmötru órangútanar. Þær tegundir mannapa sem ekki eru taldar vera í bráðri útrýmingahættu, simpansar og bonobo apar, eru þó á lista yfir tegundir í útrýmingahættu.

Austurgórillur er nýjar á lista yfir dýr í bráðri útrýmingarhættu. Tegundin samanstendur af tveimur undirtegundum og hafa stofnar tegundarinnar hrunið um 70% á síðustu 20 árum. Tegundin telur nú færri en 5.000 dýr. Ástæðu hrunsins má að mestu leiti rekja til ólöglegra veiða og hefur önnur undirtegundin, Grauer górillan, hrunið um 77% frá árinu 1995 eða frá um 16.900 dýrum í aðeins 3.800 árið 2015. Hinni undirtegundin, fjallagórillunni, hefur vegnað betur og hefur einstaklingum af tegundinni fjölgað á síðustu árum en telur þó aðeins um 880 dýr.

Ótrúlegur árangur í verndarstarfi
Ef marka má gengi risapöndunnar er þó enn von fyrir górillur heimsins. Pandabirnir hafa lengi verið einskonar flaggskip dýra í útrýmingarhættu og prýðir pandabjörn meðal annars merki World Wildlife Fund. Í dag er pandabjörninn þó ekki lengur talinn til dýra í útrýmingarhættu þökk sé þrotlausri vinnu Kínverja sem hafa bæði verndað tegundina og bambusinn sem hún lifir á.

Pandabirnir hafa nú færst í flokk viðkvæmra tegunda því þrátt fyrir mikla vinnu telur tegundin enn aðeins um 2.060 dýr, samkvæmt mati vísindamanna. Erfitt er að meta stofnstærð þessara feimnu dýra og ber ekki öllum saman um fjölda þeirra og telja sumir að þær gætu verið töluvert fleiri eða á bilinu 2.500-3.000 dýr.

Fréttirnar eru því miður ekki aðeins jákvæðar fyrir pandabirnina því, líkt og IUCN hefur bent á, getur staðan verið fljót að breytast. Áætlað er að 35% bambusskóga hverfi á næstu 80 árum vegna loftslagsbreytinga og því er mikilvægt að vernda ekki aðeins tegundina sjálfa heldur einnig heimkynni hennar.