dn27565-1_1200

Í þar síðustu viku sagði Hvatinn frá undarlegri rigningu í Ástralíu þegar þar ringdi köngulóm. Nýjustu fréttir frá Tasmaníu, eyju suður af Ástralíu, herma að þar glói ár nú undarlegum bláum ljóma, svo engu líkara sé en að um yfirnáttúruleg fyrirbæri sé að ræða.

Það er þó ekki raunin. Það sem er hér á ferðinni eru svif, sem eru gædd sömu hæfileikum og til dæmis eldflugur, að glóa í myrkri. Svifin sem um ræðir í þessu tilfelli eru skoruþörungar af tegundinni Noctiluca scintillans. Ljósið sem þörungarnir gefa frá sér er blátt og því litast árbakkarnir bláir og gefa ánni ævintýranlegan blæ. Sjónarspilið er stórkostlegt eins og hægt er að skoða á facebooksíðu sem ber titilinn Flame of Fire og er í eigu ljósmyndara sem býr á svæðinu þar sem þörungarnir blómstra sem skærast.

Flame of Fire

En þó fyrirbæri gleðji augað hefur það einnig sína galla. Þessir tilteknu þörungar éta önnur svif í vatninu og takmarka þannig fæðuval fiska í ánum. Að auki eru þessir skoruþörungar eitraðir en þegar þörungurinn deyr losnar um heilmikið ammoníak sem fer útí vatnið og þar með útí vistkerfi fiskanna sem þar lifa. Fiskarnir þola illa svona háan styrk ammoníaks og þar að auki hefur efnið áhrif á bragð vatnsins.

Einungis 10 ár eru síðan þessi tegund skoruþörunga fór að vera algeng svona sunnarlega, við strendur Ástralíu. Fram til ársins 1994 höfðu þessi svif aldrei sést í Tasmaníu. Eins og svo mörgu öðru er hér hlýnun jarðar um að kenna. Vegna hennar eru hafstraumar við Ástralíu að breytast og nú er Austur-Ástralíu straumurinn orðinn svo kröftugur að hann ýtir heitum sjó suður fyrir Tasmaníu. Með þessu breytist vistkerfið í hafinu og vötnum umhverfis eyjuna. Með árunum hefur blómstrun þörunganna aukist í ám Tasmaníu og nú er svo komið að yfirvöld telja fiskeldum hætta búin af eitrinu sem þörungarnir gefa frá sér.

Business Insider fjallaði um málið.