pexels-photo

Veiðiþjófnaður er ein stærsta ógn dýra í útrýmingarhættu um allan heim. Dýr sem hafa eftirsóknarverða eiginleika eins og sérstök horn, sem oft eru seld á svörtum markaði sem lækningavörur, eru veidd eða það sem verra er meidd svo illa að þau deyja hægum kvalafullum dauðdaga útí náttúrunni. Yfirvöld og verndarsamtök reyna í flestum tilfellum hvað þau geta en standa oft varnarlaus gagnvart vandanum þar sem svæðin sem þarf að vernda eru gríðarlega stór.

Nú hefur verkefni sem kallast K9 verið hrint af stað hjá Anti-Poaching and Canine Training Academy. Verkefnið snýst um að þjálfa hunda til að ráðast á og ná veiðiþjófum sem hafa sést eftir eftirlitsferð í þyrlum. Hundarnir eru þá með í þyrlunum en þegar sést til veiðiþjófa er hundunum annað hvort slakað niður á jörðina eða þeir fara með fallhlífum, allt saman í fylgd með umsjónarmanni. Hundarnir eru síðan fljótir að þefa þjófana uppi og ná þeim.

Það er mikilvægt að geta þjálfað hundana í þessum tilgangi þar sem þeir hlaupa miklu hraðar en fólk og komast auk þess yfir miklu erfiðari landssvæði. Enn sem komið er, er verkefnið bundið við Kruger National Park í Suður Afríku. Við munum vonandi fljótlega sjá hvaða árangur næst með þessari aðferð. Í það minnsta er það heilmikið ævintýri fyrir hundana sem taka þátt í K9 að ferðast með þyrlum, eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan.