Hlýnun jarðar hefur lengi verið yfirvofandi ógn yfir lífi á jarðkringlunni. Við vitum að afleiðingar breytinga á hitastigi jarðarinnar geta haft margvísleg áhrif og þá mest megnis á lífríki jarðar, sem við mannfólkið treystum heilmikið á. Ein stærstu áhrif hlýnunarinnar á lífríki jarðar í heild eru breytingar á tegundafjölbreytileika, það er að segja hnignun líffræðilegs fjölbreytileika.

Þegar hönnuð eru reiknilíkön til að skilgreina hversu mikil áhrifin geta verið er yfirlett reiknað með því að hitastig hækki svo mikið að lífverur geta ekki lengur lifað við slíkar aðstæður. Þá er vísað í að hitastigsbreytingin sé svo mikil að lífeðlisfræðilegir ferlar hreinlega virka ekki lengur. Í yfirlitsgrein sem birtist í Trends in Ecology and Evolution eru þessar forsendur gagnrýndar þar sem hæfni lífveranna fer hnignandi löngu áður en þær deyja.

Frjósemi – stór breyta

Frjósemi lífvera er mikilvægur mælikvarði á lífvænleika stofnsins. Ef frjósemi fer minnkandi eru líkur á að stofninn muni minnka í samræmi við það. Frjósemi ræðst af mörgum þáttum og eru þá umhverfisþættir þar ekki síst ráðandi. Við álag vegna hitabreytinga geta orðið dramatískar breytingar á frjósemi tegunda.

Þar sem frjósemi er mæld í fjölda fæddra einstaklinga geta breyturnar sem stjórna henni verið margvíslegar. Má þar nefna fjölda kynfrumna, gæði kynfrumna eða jafnvel getu og áhuga einstaklinga innan tegundarinnar til að makast. Margar tegundir nota lykt eða útlit til að laða til sín frambærilegan einstakling til að æxlast við en hvort tveggja stjórnast mikið af utanaðkomandi þáttum.

Hitastig hefur mikið að segja

Eins og talið er hér að ofan stjórnast frjósemi af ótal þáttum sem beint eða óbeint verða fyrir áhrifum af hitastigi vistkerfisins. Þess vegna getur hækkandi hitastig jarðar haft margvísleg áhrif á frjósemi tegunda.

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar, m.a. til að skilgreina áhrif hlýnunar jarðar á lífverur. Þær hafa varpað ljósi á alvarleika málsins. Þó áhrifin séu misjöfn eftir því hvaða tegund um ræðir.

Tegundir misviðkvæmar

Þær tegundir sem nota umhverfið til að viðhalda líkamshita sínum koma að öllum líkindum verst út. En áhrifanna getur gætt á margvíslegan hátt. Allt frá skemmdum í kynfrumum til hnignunar á fæðuframboði.

Rannsóknir sem hafa verið framkvæmdar á þessu sviði ná yfir stóran hóp lífvera, allt frá kóralrifjum til svína. Langoftast virðast áhrifin koma fram í skerðingu á fjölda kynfrumna, breytingu á útliti þeirra eða hreyfigetu sæðisfrumna.

Ein rannsókn þar sem drekaflugur voru skoðaðar sýndi að þegar flugurnar eyddu of mikilli orku í að viðhalda réttum líkamshita höfðu þær ekki burði til að viðhalda stofninum. Annað dæmi um svipaðar afleiðingar, í býflugum þar sem breytingar á lyktarefnum sem dýrin gáfu frá sér leiddu til þess að einstaklingar þóttu ekki fýsilegir til æxlunar.

Hver eru áhrifin?

Verði hitabreytingarnar ekki miklar eða þær vara í stuttan tíma virðast flestar tegundir hafa möguleikann á því að snúa þessari þróun við. Hins vegar er aðra sögu að segja ef breytingarnar eru miklar og þá sérstaklega ef þær vara í lengri tíma.

Þó reiknilíkön sem vísindamenn hafa hingað til stuðst við séu ekki röng þá sýna þau ekki endilega alla myndina. Vissulega hætta lífeðlisfræðilegir ferlar, líkt og öndun, að virka þegar umhverfishitastig hefur náð ákveðnu hámarki. Lífvænlegt hitastig tegundarinnar í heild liggur þó að öllum líkindum á mun þrengra bili.

Til að meta áhrif hlýnunar jarðar á tegundafjölbreytileika er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvenær frjósemi tegundanna er ógnað. Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að tegundir þola hitastigsbreytingarnar misvel. Þannig getur tegundafjölbreytileiki innan ákveðinna hópa lífvera hrunið meðan annar hópur stendur í stað.

Áhrifanna mun þó gæta hvarvetna þar sem vistkerfi tegundanna eru fléttuð saman á einn eða annan hátt. Fæðupýramídinn samanstendur af tegundum sem eru misjafnlega viðkvæmar fyrir hitastigsbreytingum. Þannig mun hrun í stofnstærð einnar lífveru hafa áhrif langt umfram hana sjálfa. Þessar breytingar munu því strax hafa áhrif á okkur mannfólkið hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.