Mynd: Juerg Matter
Mynd: Juerg Matter

Sú frétt hefur varla farið fram hjá nokkrum Íslendingi að nýverið birtist grein í Science þar sem íslenskir vísindahópar við Háskóla Íslands og Orkuveitu Reykjavíkur ásamt hópum við University of Southampton, Columbia University og University of Toulouse lýsa nýrri leið til að binda koltvísýring úr andrúmslofti. Koltvísýrings aukning í andrúmslofti er ein af megin ástæðum aukinnar hlýnunnar jarðar og því er hér um mjög svo verðugt verkefni að ræða. En hvernig er hægt að hafa þessi áhrif?

Til að binda koltvísýringinn er hann fyrst leystur upp í vatni, það má í raun segja að fyrst er búið til rosalega mikið af sódavatni. Koltvísýringnum er s.s. dælt í vatn, sem bindur efnið. Meðan koltvísýringurinn er bundinn í vatnið var sódavatninu svo dælt í átta borholur í tilraunaskyni sem voru 400-800 metra djúpar. Í borholunum losnaði koltvísýringurinn svo úr viðjum vatnsins. Svo heppilega vill til að jarðefnafræði Íslands hentar ótrúlega vel til að binda koltvísýring. Ísland er nefnilega eldfjallaeyja og stór hluti bergsins sem hér er að finna er svokallað basalt. Basalt er ríkt af efnum eins og kalki, magnesíum og járni en þessi efna ganga auðveldlega í efnasamband við koltvísýring.

Vegna þessara sérstöku aðstæðna sem er að finna ofan í berglögum landsins binst koltvísýringurinn tiltölulega fljótt við bergið. Samkvæmt tilraununum sem fóru fram hér á Íslandi við Hellisheiðavirkjun tekur það ekki nema tvö ár að binda 95-98% koltvísýringsins sem dælt var niður í upphafi.

Til allrar lukku er Ísland ekki svo einstakt að einungis hér á landi gefist tækifæri til að binda koltvísýring á þennan hátt, því basalt er ein algengasta bergtegund í heiminum. Þau lönd sem eru rík af basalti geta því nýtt þessa aðferð líka. Ekki má þó gleyma að það skiptir líka gríðarlega miklu máli að minnka losun koltvísýrings útí andrúmsloftið og það getum við gert með margvíslegum hætti eins og að spara bílinn okkar eða keyra sparneytnari bíla, svo dæmi séu tekin.