POD8673

Eins og flestir muna átti sér stað hræðilegt kjarnorkuslys í Fukushima í Japan fyrir rúmum fjórum árum síðan, í kjölfar flóðbylgju og jarðskjálfta þann 11. mars 2011.

Ljósmyndarinn Arkadiusz Podniesiński fór nýlega til Fukushima í þeim tilgangi að taka myndir af svæðinu og gera samanburð á Fukushima og Chernobyl, fólksflutningum af svæðunum og hreinsun þeirra.

Að sögn Podniesiński hefur Fukushima staðið nær ósnert síðan slysið átti sér stað en ólíkt Chernobyl er enginn ferðamannastraumur til Fukushima. Enn er að finna leikföng, hljóðfæri og jafnvel pening sem íbúar hafa skilið eftir sig.

Enn eru yfir 120.000 manns sem bíða þess að komast aftur heim og hefur Fukushima verið skipt í þrjú svæði: grænt, appelsínugult og rautt. Hreinsun á græna svæðinu er nánast lokið en appelsínugula svæðið er aðeins opið íbúum í nokkra klukkutíma í senn á meðan sérstaka heimild þarf til að fara inn á rauða svæðið. Vegna mikillar geislunar á rauða svæðinu er ólíklegt að íbúar þess geti nokkurntíman snúið heim aftur. Þrátt fyrir að óheimilt sé að búa á appelsínugula svæðinu hafa nokkrir íbúar snúið aftur heim ólöglega.

Illa hefur gengið að hreinsa upp suma hluta Fukushima vegna þess hve erfitt svæðið er yfirferðar. Samkvæmt Podniesiński eru aðeins þau svæði sem eru innan við 10 metra frá götum hreinsuð en svæðin í skógum og fjöllum látin eiga sig. Vegna þessa hafa vísindamenn áhyggjur af því að regn muni skola geislavirkum samsætum úr fjalllendinu og menga íbúabyggð.

Myndir Podniesiński er magnaðar og látum við þær tala sínu máli hér að neðan.

vlcsnap-2015-09-13-22h57m10s365

POD8533

POD9297

POD9335