Mynd: Global Research
Mynd: Global Research

Eftir kjarnorkuslysið í Fukushima árið 2011 hafa vísindamenn fylgst náið með útbreiðslu efna sem frá því koma. Tilgangurinn er ekki bara að mæla mengun heldur einnig að fylgjast með hreyfingum hafsins og skrásetja hafstrauma.

Nýjustu tölur benda til þess að mengunin nái nú alveg upp að vesturströnd Bandaríkjanna og ná hæstu gildin sem hafa mælst 11 Becquerel á hvern rúmmetra af sjó. Slík gildi mældust í sýni sem tekið var úti við strönd San Francisco. Enn sem komið er eru gildin mun lægri en viðmimðunargildi yfirvalda. Til að mæla mengunina er fylgst með frumefninu cesium, en það er efni sem er mikið notað við kjarnorkuvinnslu. Viðmiðunargildin segja til um hversu mikið cesium má vera til staðar áður en lífríki í kring verður fyrir skaða.

Það er Ken Buesseler við Woods Hole Oceanographic Institution sem fer fyrir rannsókninni en gagna er meðal annars aflað af sjálfboðaliðum. Sýnasafnið er því orðið gríðarstórt og gagnamagnið í samræmi við það. Fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með verkefninu er hægt að gera það á heimasíðu Woods Hole Oceanographic Institution. Hluti af verkefninu verður kynntur á American Geophysical Union ráðstefnunni í San Francisco 14. desember næstkomandi.