Global-Warning

Þó við hér á klakanum getum ekki tekið undir þessa fullyrðingu þá hefur meðalhiti á jörðinni fyrstu fimm mánuði ársins 2015 mælst 0,71°C hærri en síðustu ára og hefur hitastig ekki mælst svo hátt síðan NASA hóf mælingar árið 1880. IFLScience fjallaði er um málið í vikunni.

Í umfjöllun IFLScience og The Guardian kemur fram að andstæðingar kenninga um hnattræna hlýnun hafi varla nokkur haldbær rök lengur. Hnattræn hlýnun er þar að auki einnig farin að hafa áhrif á hitastig sjávar, en slíkar afleiðingar gerast mun hægar en breytingar á lofthita.

Heimurinn er strax farinn að sjá afleiðingar hnattrænnar hlýnunar í formi dauðsfalla, sem dæmi má nefna hitabylgjuna sem gengið hefur yfir Indland nýlega, en þar hafa nú þegar um 2500 manns dáið. Það verður því að viðurkennast að hnattræn hlýnun er líklega hvorki í pásu né í rénun, heldur virðist hún, samkvæmt þessum mælingum, nú skella á okkur af fullum þunga. Kuldinn og sviptingarnar sem Íslendingar hafa verið að upplifa í veðrinu gætu einnig orsakast af hnattrænni hlýnun, þar sem hitastig og þar með straumur hafsins gætu verið að breytast. Það hefur líklega aldrei verið jafnmikilvægt að reyna að sporna við áframhaldandi þróun mála.

Lesið einnig:
Stöðnun í losun gróðurhúsalofttegunda
Af hverju hefur hægst á hlýnun jarðar?
Pistill: Hnattræn hlýnun – skaði eða spenningur?