Mynd: César Hernández/CSIC
Mynd: César Hernández/CSIC

Vísindamenn við Cambridge háskóla uppgötvuðu nýverið að fiðrildalirfur náttfiðrilda af tegundinni Galleria mellonella geta melt plast. Vonir standa til að hægt verði að nýta þekkinguna í baráttunni við plastúrgang.

Plastúrgangur, sér í lagi úr efninu polyethylene, er vaxandi vandamál sem við mannfólkið eigum í fullu fangi við að sporna gegn. Þó efnið sé afar hentugt til ýmissa nota á borð við það að búa til innkaupoka og umbúðir fyrir ýmis matvæli getur það tekið efnið hundruðir ára að brotna niður í náttúrunni. Því safnast það fyrir á ruslahaugum og í náttúrunni þar sem það hefur afar slæm áhrif á viðkvæmt dýralíf.

Ný von virðist þó vera fundin eftir að vísindamenn komust að því að fiðrildalirfur sem þekktar eru fyrir að geta brotið niður vax býflugna geta einnig brotið niður plast á svipaðan hátt. Í ljós kom að lirfurnar gátu brotið niður plastið nokkuð hratt og myndað göt á plastfilmum innan nokkurra klukkustunda. Vísindamennirnir vonast til þess að hægt verið að nýtta þessa þekkingu til að þróa leiðir til að brjóta niður plastúrgang hraðar en við þekkjum í dag.

Einn vísindamannanna, Dr Paolo Bambelli, sagði að fiðrildalirfurnar væru byrjunarreiturinn en frekari rannsóknir munu reyna að varpa ljósi á það hvernig lirfurnar brjóta niður plastið. Rannsóknarhópurinn hefur þegar sótt um einkaleyfi á uppgötvuninni en hann telur að örverur í meltingarfærum lirfanna gætu átt þátt í niðurbrotinu, auk lirfunnar sjálfrar.

Þrátt fyrir þessar jákvæðu niðurstöður benda vísindamennirnir á að þó fram komi aðferð til að brjóta niður plast sé það engin afsökun fyrir því að henda því út í náttúruna.

Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Current Biology.