Mynd: RedOrbit
Mynd: RedOrbit

Flest höfum við margoft heyrt talað um ósonlagið, sem er lofthjúpur sem umlykur jörðina. Óson er lofttegund sem samanstendur af þremur súrefnisatómum og er lofthjúpurinn mikilvægur til að vernda jörðina frá útfjólubláum geislum sólarinnar. En eitt af einkennum hans er að hann breytist með árstíðarsveiflum sem þýðir að sólargeislarnir eiga misgreiða leið í að jörðinni eftir því hvaða árstíð er.

Líklegt er að margir hafi einnig heyrt tala um gatið sem myndast hefur í þessum lofthjúp á suðurhveli jarðar. Þetta svokallaða gat er ekki gat í hefðbundnum skilningi þessa orðs heldur þýðir þetta að á suðurhveli jarðar hefur hjúpurinn þynnst, sem gerir það að verkum að útfjólublátt ljós á greiðari leið til jarðar.

Það var í kringum 1950 sem fyrst var tekið eftir þynningu ósonlagsins og eftir nokkra rannsóknarvinnu fannst sökudólgurinn, CFC (Chlorofluorcarbons) efni sem voru þá mikið notuð og útbreidd um allan heim. Árið 1987 gerðu allar þjóðir heimsins með sér samkomulag um að hætta að losa þessi efni útí andrúmsloftið í von um að koma í veg fyrir frekari skaða.

Samkvæmt mælingum vísindamanna við MIT er ósonlagið nú loks að jafna sig og gatið hefur minnkað um u.þ.b. 4 þúsund ferkílómetra síðan það var sem stærst árið 2000. Rannsóknarhópurinn hefur bæði fylgst með magni CFC efna og ósonlofttegunda í lofthjúpnum í september á hverju ári frá 2000 til 2015. Mælingar í svona langan tíma hafa nú skilað hópnum niðurstöðum sem hægt er að nota til að búa til reiknilíkan sem spáir fyrir um framtíðarhegðun ósonlagsins og nú loks sjáum við fram á að ósonlagið verði heilt aftur.