flat1000x1000075f

Fram að þessu hafa gíraffar verið skilgreindir sem ein tegund sem ber latneska heitið Giraffa camelopardali. Samkvæmt nýbirtri grein er í raun ekki um eina tegund að ræða heldur fjórar. Þetta eru niðurstöður erfðarannsóknar vísindamanna frá Giraffe Conservation Foundation í Namibíu.

Rannsóknarhópurinn skoðaði erfaðmengi 190 gíraffa víðsvegar frá Afríku og komu niðurstöðurnar nokkuð á óvart. Gíraffarnir voru töluvert ólíkari erfðafræðilega séð en búist var við og var munurinn á milli einstaklinga stundum meiri en á milli ísbjarna og skógarbjarna. Í greininni, sem birt var í gær í tímaritinu Current Biology, er því lagt er til að gíraffar séu í raun fjórar tegundir sem aðskyldust fyrir 1,25-2 milljónum ára.

Tegundirnar sem rannsóknarhópurinn hefur flokkað gírafana í eru: suðurgíraffar (G. giraffa), Masai gíraffar (G. tippelskirchi), möskva gíraffar (G. reticulata) og norðurgíraffar (G. camelopardalis). Heildarfjöldi gíraffa í Afríku er í kringum 90.000 dýr og hafa vísindamenn því haft litlar áhyggjur af tegundinni fram að þessu. Með þessari nýju flokkun gæti staðan þó breyst nokkuð enda mismargir einstaklingar sem skipa nýju tegundirnar. Um 40.000 suðurgíraffa er að finna í Afríku en færri en 4.750 norðurgíraffa og færri en 8.700 möskva gíraffar sem þýðir í raun að tegundirnar tvær eru hætt komnar.