cute-baby-panda_616

Risapöndur (Ailuropoda melanoleuca) hafa átt erfitt uppdráttar í tugi ára og hafa lengi verið flaggskip fyrir dýr í útrýmingarhættu. Nýjar niðurstöður World Wildlife Fund (WWF) er þó jákvæðar fyrir tegundina.

Nýjustu tölur áætla að 1.864 pandabirnir séu nú í náttúrunni og að 16,8% fjölgun hafi átt sér stað á síðustu 10 árum. Auk þess virðast risapöndur hafa stækkað búsvæði sitt um 11,8% frá árinu 2003.

Fulltrúar WWF eru að vonum ánægðir með árangurinn og þátt Kína í því að stuðla að verndun pöndunnar. Samkvæmt fréttatilkynningu WWF er risapöndur einungis að finna í Sichuan, Shaanxi og Gansu héruðum Kína. Meirihluti þeirra lifa innan verndarsvæða en um 33,2% lifa utan þeirra og eru þær í meiri hættu gagnvart veiðiþjófum.

Risapandan er svokölluð regnhlífategund (e. umbrella species) fyrir verndun dýra á svæðinu, þ.e. verndun hennar leiðir til þess að margar aðrar dýrategundir njóta vernar á sama tíma t.d. vegna uppbyggingar verndarsvæða.

WWF stefnir að áframhaldandi verndun tegundarinnar og er markmið næstu 10 ára að bæta búsvæði risapöndunnar á þann hátt að verndun og sjálfbær þróun á svæðinu haldist í hendur.

Lesa má fréttatilkynningu um málið á heimasíðu WWF hér.