Modern-groundwater-map-web

Sífellt berast fréttir af þeim neikvæðu áhrifum sem mannkynið hefur á plánetuna og er eitt vandamálið sem við stöndum frammi fyrir yfirvofandi vatnskortur. Nú hefur teymi vatnafræðinga áætlað hversu mikið grunnvatn er til staðar á jörðinni og voru niðurstöðurnar birtar í tímaritunu Nature Geoscience þann 16. nóvember.

Sérfræðingarnir telja að eins og staðan sé í dag búi Jörðin yfir um 23 milljón rúmkílómetrum af grunnvatni. Það kann að hljóma eins og feykinóg af vatni en miðað við núverandi notkun er magnið ekki nóg til þess að framfleyta mannkyninu til frambúðar.

Eitt vandamálið er það að aðeins um 0.35 milljón rúmkílómetrar grunnvatnsins er yngra en 50 ára, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar. Einnig kemur fram að aðeins um 6 prósent af því grunnvatni sem er að finna í efstu 2 kílómetrum jarðlaganna geti endurnýjast á einni mannsævi.

Aldur grunnvatns er mikilvægur í ljós þess að líklegra er að “ungt” grunnvatn sé drykkjarhæft en eldra grunnvatn. Ungt grunnvatn er einnig nær yfirborði jarðar og því bæði auðveldara að nýta og endurnýja það. Eldra grunnvatn, sem getur verið milljóna ára gamalt, er hins vegar líklegra til að innihalda arsen eða úran auk þess sem það er oft mjög salt.

Eins og gefur að skilja er nýtanlegt grunnvatn mismikið eftir svæðum heimsins. Í rannsókninni staðfesti rannsóknarhópurinn það sem lengi hefur verið talið: að mest grunnvatn sé að finna í hitabeltinu og í fjalllendi en minnst á svæðum þar sem úrkoma er lítil.

Næstu skref rannsóknarhópsins eru að kanna það hversu hratt við erum að nota það grunnvatn sem er til staðar og áætla hversu langt er í það að vatnið verði klárað ef ekkert er að gert.