Mynd: Yoder's Smoky Mountain Barbecue
Mynd: Yoder’s Smoky Mountain Barbecue

Kostnaðurinn sem fylgir því að rækta kjöt í einn hamborgara er gríðarlegur. Það kostar mikla vinnu, hefur neikvæð áhrif á umhverfið og þess utan kostar það slátrun á dýrum. Vegna þessa kostnaðar taka margir þann kost að gerast grænmetisætur. Nú fer sá möguleiki þó að verða raunverulegur að hægt verði að borða kjöt án þess að slátra dýri.

Það er ekki svo ýkja langt síðan vísindamönnum tókst að framleiða nægilegt magn af kjöti til að búa til hamborgara. Sá borgari var meira að segja bragðgóður að sögn þeirra örfáu sem fengu að smakka hann þó í hann vantaði alla fitu sem gerði hann frekar þurran. Gallinn við þennan borgara var þó sá að kostnaðurinn við að borða hann var eitthvað í kringum 37 milljónir.

Nú hefur vísindahópur við sama háskóka Maastricht University í samvinnu við kjöt vinnslufyrirtækið Mosa Meat gefið út yfirlýsingu um að kjöt ræktað með þessum hætti verði komið á markað, á viðráðanlegu verði eftir um það bil 5 ár. Mörgum gæti þótt það ógirnilegt að borða kjöt sem er ræktað á rannsóknarstofu, en það sparar umhverfinu okkar helling, kostar mun minni umhverfisspjöll og miklu minna vatn, sem er því miður af skornum skammti í mörgum hluta heimsins. Því er næsta hlutverk vísindamanna ekki bara að gera aðferðina til að rækta kjöt betri og öruggari, heldur einnig að útskýra ferilinn og leyfa verðandi neytendum að fylgjast með og skilja hvernig kjötið sem þau munu mögulega borða verður til.

Hvatinn mælir með því að lesendur horfi á myndbandið hér að neðan, þar sem farið er í gegnum ferilinn á myndrænan hátt.

Á heimasíðu BBC er einnig hægt að sjá viðtal við Mark Post, frá Maastricht University, þar sem hann leiðir áhorfandann í gegnum rannsóknarstofuna.