Mynd: All You Need is Biology

Unnið er að því að banna margar gerðir sólarvarna í Hawaii fylki Bandaríkjanna. Bannið væri til þess fallið að vernda viðkvæm kóralrif eyjaklasans.

Ef frumvarp þess efnis verður samþykkt í desember á þessu ári gæti það tekið gildi í janúar 2021. Bannið tæki til sólarvarna sem innihalda efnin oxybenzone og octinoxate. Talið er að þessi efni geti haft neikvæð áhrif á kóralla og stuðlað að bleikingu þeirra, auk þess að hafa áhrif á innkirtlakerfi ungra kóralla. Um 3.500 vörur sem innihalda efnin eru á markaði víðsvegar um heiminn.

Öldungardeildarþingmaður fylkisins, Mike Gabbard, sagði í samtali við Holnolulu Star Advertiser að bannið “myndi breyta miklu fyrir verndun kóralrifa, sjávarlífs og heilsu mannfólks”.

Þó kórallar hafsins myndu eflaust njóta góðs af banninu eru ekki allir sammála um ágæti þess. Hawaii Medical Association hefur bent á mikilvægi sólarvarnar í heilsu manna og hafa áhyggjur af því að að fólk muni hætta notkun þess á eyjunum og auka þar með líkur á sólbruna og húðkrabbameini.

Kóralrif Jarðar eru í mikilli hættu og dóu til að mynda um 30% kóralla í Kóralrifinu mikla við Ástralíu fyrir tæpum tveimur árum síðan. Rifin eru mikilvægur hluti af vistkerfum hafsins og því afar mikilvægt að þau séu vernduð eins og hægt er.

Fyrir þá sem stefna á það að synda á svæðum þar sem kóralrif er að finna er gott að hafa í huga að leita upp sólarvörn sem ekki inniheldur þessi óæskilegu efni.