Mynd: Tourist Destination
Mynd: Tourist Destination

Á morgun hefjast Ólympíleikarnir í Rio de Janeiro sem margir hafa beðið eftir. Þó eru ekki allir jafn spenntir yfir keppninni þar sem stór hluti umfjöllunarinnar um leikana hefur m.a. snúist um vatnsgæði á svæðinu. Margir íþróttamenn sem leggja stund á róður eða sund svo dæmi séu tekin hafa áhyggjur af því að vatnið sé svo mengað af úrgangsvatni íbúa borgarinnar að það geti verið þeim heilsuspillandi. Að auki mun ferðamönnum á svæðinu fjölga talsvert í tengslum við leikana og gera má ráð fyrir að margir þeirra muni hafa hug á að heimsækja strandirnar í kring. En er ástæða til að hafa áhyggjur?

rannsókn sem stóð yfir í 16 mánuði tók fyrir að meta vatnsgæði í kringum Rio de Janeiro, bæði ferðamannastrendur sem og keppnissvæði. Við talningu og úrvinnslu sýnanna kom í ljós að í vatninu mælist óvenjumikið af veirum sem kallast adenoveiru. Aðrar örverur sem leitað var eftir mældust að meðaltali ekki yfir viðmiðunarmörkum.

Þegar rannsóknir sem þessar eru framkvæmdar er yfirleitt leitast við að skilgreina hvort hættulegar veirur eða bakteríur séu til staðar. Þess vegna er skimað eftir ákveðnum tegundum af örverum sem vitað er að geta valdið sjúkdómum. Til dæmis er leitað að E. coli bakteríunni vegna þess að hún finnst í saur og gefur magn hennar því vísbendingu um hversu vel frárennsli er hreinsað og svo framvegis.

Þess vegna skiptir samsetning örveranna í vatninu ekki síður máli en magn þeirra. Í rannsókninni sem unnin var hér fundust mjög heilsuspillandi örverur ekki í miklu magni. Sú veira sem helst fannst var af hópi adenóveira, en slíkar veirur valda yfirleitt ekki alvarlegum sjúkdómum, þ.e.a.s. þær eru ekki þekktar fyrir að draga fólk til dauða og í flestum tilfellum þarf engin lyfjainngrip svo ónæmiskerfið okkar geti sigrast á veirunni.

Það er því líklegt að þó mengunarvörnum í Rio de Janeiro sé sennilega ábótavant þá er gestum leikanna ekki endilega jafnmikil hætta búin og fyrirsagnir fréttamiðla vilja vera láta. Tom Hale skrifar áhugaverðan pistil um málið sem hægt er að nálgast hér.