apus_apus_-barcelona_spain-8_1

Nýbirtar niðurstöður rannsóknar á múrsvölungum (Apus apus) hefur sýnt fram á að einstaklingar tegundarinnar geta eytt allt að 10 mánuðum á flugi á ári.

Fuglafræðingar, sem og annað áhugafólk um fugla, hafa lengi velt fyrir sér hversu miklum tíma fuglarnir eyða á flugi en rannsóknir sem þessi hafa fram að þessu verið erfiðar í framkvæmd þar sem tegundin vegur aðeins um 40 grömm. Tækniframfarir undanfarinna ára hafa þó einfaldað vísindamönnum lífið og í þessu tilviki var hægt notast við mælitæki sem vó aðeins 1,1 gramm.

Fuglafræðingar í Svíþjóð festu örsmá mælitæki sem innihéldu bæði hröðunarmæli og dægurrita á 13 fugla. Mælirinn skráði niður ferðir fuglanna sem áttu upphaf og endi á varpstöðvum þeirra í Svíðþjóð með viðkomu í Mið-Afríku og víðar.

Í ljós kom að þrír fuglanna snertu aldrei jörðu í 10 mánuði á meðan hinir 10 fuglarnir eyddu 99% tímans í loftinu með stuttum stoppum yfir næturtímann.

Þrátt fyrir þessar nýju upplýsingar um tegundina vita vísindamennirnir enn ekki hvort eða hversu mikið fuglarnir sofa á meðan á fluginu stendur. Flestar dýrategundir þola illa að sofa lítið, líkt og við þekkjum sjálf, en svo virðist sem að lítill svefn hafi ekki sömu áhrif á múrsvölunga.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Current Biology.