screen-shot-2017-02-27-at-21-13-59

Við höfum lengi vitað að helsta ógnin sem stafar af lífríki Jarðar er við sjálf. Í dag eru um ein af hverjum fimm tegundum á plánetunni í útrýmingarhættu og hafa vísindamenn nú gefið út að sé ekkert að gert gæti hátt í helmingur allra tegunda á Jörðu dáið út fyrir lok aldarinnar.

Þessar upplýsingar voru birtar í tengslum við vinnustofu sem haldin er í Vatíkaninu í vikunni, fyrir tilstuðlan Frans páfa og fjallar um framtíð lífríkis á plánetunni. Þar koma saman 26 af fremstu líffræðingum, vistfræðingum og hagfræðingum heims til að leita leiða til að vernda lífríki Jarðar frá ágangi manna.

Vinnustofan er ekki haldin að ástæðulausu en samkvæmt upplýsingabæklingi hennar benda tölfræðilegar greiningar frá Intergovernmental Panel on Climate Change til þess að 20-40% alls líffræðilegs fjölbreytileika komi til með að þurrkast út fyrir lok aldarinnar.

Umræða um tegundir í útrýmingarhættu fær flesta til að hugsa um tegundir á borð við pöndur, tígrisdýr og nashyrninga en staðreyndin er sú að þær eru aðeins brot af þeim tegundum sem eru í hættu. Skipuleggjendur vinnustofunnar benda meðal annars bent á að plöntutegundir eru margar hverjar í bráðri hættu.

Í dag nýtir mannkynið 103 tegundir plantna til að framleiða um 90% af fæðu okkar. Þar af eru þrjár tegundir, maís, hrísgrjón og hveiti 60% af heildarframleiðslunni. Við höfum í dag afar litla þekkingu á þeim mikla fjölda plantna sem er að finna á Jörðinni og hafa vísindamenn áhyggjur af því að fjöldi þeirra komi til með að hverfa fyrir fullt og allt innan fárra ára.

Vinnustofan, sem sett var á laggirnar af Vatíkaninu, er ekki hafin yfir gagnrýni. Einn þátttakandi á fundinum, Paul Ehrlich, hefur til dæmis hlotið nokkra gagnrýni innan kaþólsku kirkjunnar vegna skoðanna sinna á getnaðavörnum í tengslum við fólksfjölgun.

Ehrlich hefur bent á þátt fólksfjölgunar í áhrifum mannsins á umhverfi sitt og mikilvægi getnaðarvarna og aðgengi að þeim í þeirri baráttu. Þetta er þvert á það sem kaþólska kirkjan, sem lengi hefur verið mótfallin notkun getnaðavarna, hefur boðað.

Í dag telur mannkynið 7,4 milljarða og spá Sameinuðu þjóðirnar því að það muni telja 11,2 milljarað einstaklinga fyrir upphaf næstu aldar.