Þó íbúar Íslands hafi margir hverjir vart séð til sólar hafa íbúar annarstaðar á norðurhveli jarðar upplifað miklar hitabylgjur það sem af er sumri.

Höfuðborgir Skandinavíu, Bretalandseyjar og ákveðin svæði í Bandaríkjunum hafa verið óvenju hlý og lítur síst út fyrir það að hitinn sé á enda. Í Bretlandi hefur svona langvarandi hitabylgja ekki mælst í 42 ár og í Kanada hafa í það minnsta 34 látið lífið vegna hitans.

Þegar haldið er sunnar á bógin til Ahvas í Íran hefur hitinn hæst náð 54°C, í Pakistan hefur hann hæst mælst 50,2°C og í Yerevan í Armeníu 42°C. Í borginni Quriyat í Oman mældist síðan hæsti samfelldi hiti frá því að mælingar hófust. Þar var lægsti hitinn á sólarhringstímabili 42,6°C.

Þó óvenjulega mikill hiti geti mælst hér og þar um heiminn án þess að það þyki óvenjulegt er sjaldgæft að hitabylgjur séu eins útbreiddar og nú er. Flest bendir til þess að hér séu á ferðinni hinar margumtöluðu lofstlagsbreytingar. Nái mannkynið ekki að takmarka hlýnun jarðar líkt og stefnt er að með Parísarsáttmálanum, má ætla að hitamet haldi áfram að falla og verði daglegt brauð á sumrum í framtíðinni.

Þó margir taki þessum hitabylgjum fagnandi eru áhrifin til framtíðar afar slæm. Auknu hitastigi fylgir bráðnunar jökla og hafíss sem getur leitt til þess að litlar eyjur fari hreinlega á kaf auk þess sem búast má við flóðum í strandborgum. Einnig er búist við því að svokallaðir loftslagsflóttamenn muni verða algengir með tímanum og er talið að þeir geti jafnvel orðið 2 milljarðar í lok aldarinnar.