Quality-and-Food-Safety

Hlýnun jarðar hefur ótrúlega víðtæk áhrif á líf okkar á jörðinni. Rannsókn sem framkvæmd var í Ghent (í Belgíu) og Wageningen (í Hollandi) sýnir að hlýnin jarðar mun ekki bara hafa áhrif á matvælaöryggi, þ.e.a.s. hvort nægur matur sé til, heldur hefur hlýnunin líka áhrif á öryggi matvæla, þ.e. hvort maturinn sem við borðum sé ekki skaðlegur.

Breytingar á veðráttu hafa mikil áhrif á lífríkið. Hingað til hefur áherslan mest megnis legið í því að skoða hvaða áhrif breytingarnar hafa matvælaframleiðslu. Hlýnunin hefur augljóslega mikil áhrif á uppskeru bæði vegna aukinna þurrka en einnig aukinnar úrkomu á öðrum stöðum.

Við höfum svo að segja gleymt því að skoða hvaða áhrif breytingarnar munu hafa á innihald matvælanna. Áhrifin eru margþætt, bakteríusýkingar sem berast með vatni og matvælum hafa aukist samhliða hnattrænni hlýnun vegna þess hitastig þeirra er nú heppilegra fyrir sýkjandi bakteríur samhliða breytingum í neyslumynstri sem eru a.ö.l. tilkomin vegna breytingar á framboði matvæla.

Með hlýnun jarðar geta skapast kjöraðstæður á ákveðnum svæðum fyrir ný sníkjudýr sem ræktendur hafa ekki gert ráð fyrir í matvælaframleiðslu sinni. Plöntur sem eru nú þegar komnar í kröggur með að lifa af vegna umhverfisáhrifa eiga erfiðara með að verjast sýkingum. Sveppasýkingar og bakteríusýkingar í plöntunum gætu því aukist verulega en sýklar sem þessir geta seitt eitri útí umhverfi sitt og þannig inní matvælin okkar.

Auðvitað munu áhrifin vera mismunandi eftir svæðum og sum svæði munu jafnvel hagnast á hlýnuninni bæði vegna aukinnar geislunar útfjólublárra geisla sem geta drepið litlar lífverur og vegna þess að hitastigið verður of hátt fyrir sýklana.

Í grein sinni, fara Mieke Uyttendaele, Cheng Liu og Nynke Hofstra vel yfir hvaða áhrif hlýnun jarðar getur haft á hina ýmsu þætti sem þarf að hafa í huga í framtíðinni. Þau benda einnig á að við áhættumat vegna hlýnunar jarðar er nauðsynlegt að hafa öryggi matvæla inní myndinni líka.

Háskólinn í Wageningen birti fréttatilkynningu um málið.