bell-peppers

Hlýnun jarðar og breytingar sem henni fylgja eru margar hverjar enn á huldu. Vísindahópar víðs vegar um heiminn hafa reynt að spá fyrir um hvernig hækkandi hitastig mun hafa áhrif á okkur sem og hvaða breytingar er hægt rekja til þessara gríðarlegu hröðu breytinga sem enginn getur lengur efast um.

Eins og með svo margt í þessum heimi þá er líklegt að við verðum fyrir áhrifum sem okkur óraði ekki fyrir að gætu átt sér stað. Atburðir í lífkerfinu munu a.ö.l. gerast sem engan hefði grunað að væru háðir hitastigi.

Eitt dæmi um slíkt er rætt í pistli sem birtist á Futurism. Þar rekur Karla Lant röksemdir ýmissa vísindahópa fyrir því að með hækkandi styrk koltvíoxíðs í andrúmslofti minnki næringarefni í ræktuðum afurðum okkar eins og ávöxtum og grænmeti. En það er staðreynd að samhliða hlýnun jarðar, sem er fylgifiskur aukins styrkst koltvíoxíðs í andrúmslofti, hefur næringagildi ávaxta og grænmetis minnkað.

Sambandið er þó ekki endilega svo einfalt, hlýnun jarðar eru ekki einu breytingarnar sem hafa átt sér stað. Miklar breytingar hafa til dæmis orðið á plöntunum sjálfum. Samhliða fjölgun mannskyns hefur nefnilega einnig risið upp meiri krafa um hraða uppsprettu. Þannig hefur verið valið fyrir fljótsprottnum plöntum sem einnig gefa mikið af sér.

Hingað til hafa vísindahópar talið þetta val á ykri til ræktunar vera orsakavaldinn. En það þarf ekki endilega að vera. Aukinn styrkur koldíoxíðs í andrúmslofti getur nefnilega leitt til aukinnar ljóstillífunar sem er ferill plantna til að búa til sykrur, m.ö.o. kolvetni.

Þetta þýðir að sá hluti plöntunnar sem við borðum verður kolvetnaríkari. Ávextir og grænmeti verður stærra en um leið dreifist næringarinnhaldið meira, meðan hlutfall kolvetna eykst. Þar að auki, ef plantan hefur nægilega orku í formi kolvetna og skortir ekkert til að búa hana til þá er mögulega ekki mikil ástæða fyrir plöntuna að fara í flókin efnaferli sem geta gefið af sér ógrynni af vítamínum.

Hingað til hafa fjölmargir hópar birt niðurstöður sem sýna fram á að næringargildi plantna er að breytast, á sama hátt og hitastig jarðar er að breytast. En fáir hópar hafa þó sýnt fram á orsakasamhengi þarna á milli, þó vissulega sé fylgnin til staðar.

Nú stendur þó til að reyna að sýna fram á hver áhrifin raunverulega eru. Það verður m.a. gert með því að rækta hrísgrjóna-, papriku- og kaffi-yrki frá sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar til að skoða hvort munurinn felist fyrst og fremst í yrkinu (og erfðum þess) eða í umhverfinu (sem felst að miklu leyti í hlýnun jarðar).