Mynd: Jon Shaw and Scott Last
Mynd: Jon Shaw og Scott Last

Af einhverjum ástæðum virðast hnúfubakar furðuoft bjarga öðrum spendýrum frá því að verða háhyrningum að bráð og veit enginn af hverju. Þetta atferli hvalanna hefur sést í það minnsta 115 sinnum.

Meðal sagna af björgunaraðgerðum hnúfubaka er atvik sem sjávarlíffræðingurinn Robert Pitman varð vitni af árið 2009. Samkvæmt Pitman var hópur háhyrninga að reyna að veiða sel sem fastur var á ís við Suðurskautslandið. Þegar háhyrningunum tókst að hrinda selnum af ísnum reis hnúfubakur upp á milli selsins og háhyrninganna og kom þannig í veg fyrir að háhyrningarnir næðu til hans. Í ofanálag sneri hnúfubakurinn sér við og kom selnum fyrir á kvið sínum svo háhyrningarnir næðu ekki til hans.

Annað dæmi má sjá í myndbandinu hér að neðan þar sem hnúfubakar reyna að koma gráhvalskálfi til bjargar.

Í ljósi þessarar sagna og yfir 100 annarra þykir vísindamönnum eðlilega spennandi að rannsaka hvað það er sem liggur þarna að baki. Því birti hópur vísindamanna samantekt í Marine Mammal Science þar sem atferlinu eru gerð skil og reynt að greina ástæðurnar sem liggja að baki.

Enn sem komið er er ekki vitað af hverju hnúfubakar iðka það að bjarga bjargarlausum spendýrum frá háhyrningum og er hegðunin sérstaklega óvenjuleg í ljós þess að hnúfubakarnir græða sjálfir ekkert á björgunaraðgerðunum. Tilgáta vísindamannanna að svo stöddu er sú að hnúfubakar séu vanir því að háhyrningar veiði kálfa þeirra sér til matar og bregðist því við á þennan hátt þegar háhyrningar reyna að veiða önnur spendýr sem einhverskonar fórnfýsi, hefnd eða hreinlega vegna misskilnings.

Það er ljóst að mikilla rannsókna er þörf á þessu sviði til að skilja betur hvað það er sem liggur að baki og verður spennandi að fylgjast með gangi mála í framtíðinni.