Mynd: Dario Pignatelli / Getty Images
Mynd: Dario Pignatelli / Getty Images

Hvatinn sagðir frá því í gær að Tiger Temple í Tælandi hafi verið lokað fyrir fullt og allt og að vinna sé hafin við að koma þeim 137 tígrisdýrum sem þar voru á betri stað. Tiger Temple er meðal annars grunað um að taka þátt í ólöglegri sölu á villtum dýrum.

Nú hefur komið í ljós að í það minnsta 40 dauðir tígrishvolpar voru geymdir í frysti í hofinu. Á vef Reuters kemur fram að hvolparnir hafi fundist í frysti eldhúsi hofsins.

Lögreglumaðurinn Bandith Meungsukhum sagði í samtali við AFP News Agency að hvolparnir hafi verið eins eða tveggja daga gamlir en ekki er vitað hvenær þeir dóu að svo stöddu.

Forsvarsmenn Tiger Temple neita því í Facebook færslu frá því í Mars að dauða hvolpanna hafi borið að með óeðlilegum hætti. Þeir vísa til þess að tígrishvolpar deyji í allt að 40% tilfella, til dæmis vegna reynsluleysis móður. Einnig kemur fram að áður hafi vaninn verið að brenna hvolpana að sið Búddatrúar en árið 2010 hafi fyrrum dýralæknir Tiger Temple breytt því og hafi þeir síðan þá verið geymdir í krukkum eða frystir.

Þrátt fyrir yfirlýsingar frá Tiger Temple telja yfirvöld að ekki hafi verið allt með felldu og verður málið rannsakað nánar. Líklegt þykir að einhver ástæða hafi verið fyrir því að hvolparnir hafi verið geymdir en því til stuðnings hefur verið bent á að í kínveskri læknisfræði eru ýmsir líkamshlutar tígrisdýra taldir búa yfir lækningamætti.