Nýju ári fylgja ný heilsuæði og virðast sölumenn snákaolíu hafa séð sér leik á borði í ár. Nýjasta heilsuæðið virðist nefnilega vera svokallaða “hrávatn”, sem glöggir lesendur átta sig líklega á að er í raun bara vatn.

Vatnið er frá fyrirtækinu Live Water sem meðal annars hefur orðið afar vinsælt í versluninni Rainbow Grocery í San Francisco. Þar kosta tæplega 10 lítrar af vatninu 36,99 dollara, um 3800 krónur og áfylling 14,99 dollara eða um 1500 krónur. Þetta kemur fram á vefsíðu New York Times.

Samkvæmt Live Water eru kostir “hrávatnsins” þeir að vatnið er algjörlega ómeðhöndlað sem, að sögn fyrirtækisins, er kostur vegna þess að hefðbundin meðhöndlun á vatni í Bandaríkjunum fjarlægi steinefni úr vatninu. Auk þessi segir Mukhande Singh, stofnandi Live Water, í samtali við New York Times að kranavatn þar í landi sé í raun klósettvatn með getnaðarvarnarpillum í og að flúor, sem bætt er út í vatnið, sé hugastjórnandi efni sem ekki hafi jákvæð áhrif á tannheilsu.

Í mörgum löndum er nauðsynlegt að drykkjarvatn íbúa sé meðhöndlað með einhverjum hætti til að koma í veg fyrir að hættulegar sýkingar á borð við Kóleru berist með vatninu. Þetta er gert með hag almennings að leiðarljósi og tryggir að neytendur hafi aðgang að öruggu drykkjarvatni. Ekkert bendir til þess að hið svokallaða „hrávatn“ sé öruggara til neyslu en meðhöndlað kranavatn í Bandaríkjunum og er í það minnsta ekki peninganna virði.

Á Íslandi njótum við afar hreins drykkjarvatns og er um 95% neysluvatns á Íslandi ómeðhöndlað grunnvatn.