Mynd: Mental Floss
Mynd: Mental Floss

Hreindýr eru ein af fáum spendýrum sem lifa villt á Íslandi. Þau eru reyndar ekki innlend heldur voru þau flutt til landsins í lok 18. aldar frá Noregi. Hreindýr eru grasætur en lifa þrátt fyrir það á köldum svæðum þar sem snjór hylur oft jörð en dýrin eru einstaklega lunkin við að grafa sig niður í ætið. Þetta stunda dýrin t.a.m. hérlendis en þau halda sig oft í fjalllendi þar sem snjóar örar en hér á láglendi.

Nýverið kynnti norskur rannsóknarhópur niðurstöður sínar á ráðstefnu British Ecological Society en hópurinn hefur skoðað vöxt hreindýra á Svalbarða síðastliðin 22 ár. Síðan árið 1994 hafa vísindamenn fangað hreindýr frá 10 mánaða aldri til dagsins í dag til að vigta þá og fylgjast með vexti þeirra. Því miður eru niðurstöðurnar ekki sérlega jákvæðar fyrir hreindýrastofninn.

Síðan mælingar hófust hefur meðalþyngd hreindýranna lækkað um 12%, frá 55 kg niður í 48 kg. Það kemur kannski ekki á óvart að hér spilar hlýnun jarðar sinn part í breytingum stofnsins. Þó hlýnunin hafi haft í för með sér hlýrri sumarmánuði sem leiðir af sér nægt æti á tímabili, er ekki öll sagan sögð. Á veturnar er það ekki bara snjór sem hylur jörðina heldur einnig ís. Þar sem úrkoman fellur í meira mæli sem rigning sem frýs svo ofan á snjónum leiðir hlýnun jarðar til þess að hreindýrin eiga erfiðara með að ná sér í æti yfir vetrarmánuðina og léttast því.

Minnkun dýranna er þó ekki alfarið veðurfarinu að kenna en um leið og fæðuöflunin hefur orðið erfiðari hefur dýrunum einnig fjölgað. Samkeppnin um fæðuna er því alltaf að aukast sem að sama skapi þýðir minni fæðu á hvert dýr.

Það væri forvitnilegt að skoða hvort svipuð áhrif hlýnunar jarðar væri að finna á hreindýrastofninum sem lifir á Íslandi, en að öllum líkindum hafa aðstæður hér á landi einnig breyst umtalsvert á síðastliðnum 20 árum.