Kjarnorka er búin til víðs vegar um heiminn. Úrgangurinn úr verksmiðjunum þar sem kjarnorka er framleidd er geislavirkur og þess vegna hættulegur. Heimurinn hefur nú þegar séð hvaða afleiðingar kjarnorkuslys/sprengjur geta haft á líf en getum við mögulega lært af þeim slysum sem nýlega hafa gerst?

Í myndbandinu hér að neðan útskýrir Erik van Sebille hvernig hægt er að fylgjast með sjávarstraumum með því að elta geislavirknina sem rann útí sjóinn þegar Fukushimaslysið átti sér stað árið 2011. Geislavirkni í litlu magni er ekki svo hættuleg og því hefur vísindamönnum tekist að fylgjast með því hvernig geislavirk efni breiðast um hafið með sjávarstraumunum.

Sjórinn gegnir meðal annars lykilhlutverki í hnattrænni hlýnun. Ekki bara vegna þess að sjórinn hefur gríðarleg áhrif á hitastig landsvæðanna í kringum hann heldur einnig vegna þess að sjórinn geymir stóran hluta þess koldíoxíðs sem fyrirfinnst á jörðinni. Það er mikilvægt að svona stór hluti af þessari tilteknu gróðurhúsalofttegund sé bundin í sjónum, þar sem það að missa allt þetta magn af koldíoxíði útí andrúmsloftið myndi hafa gífurlegar afleiðingar á hlýnun jarðar.

Þannig að, þó kjarnorkuslys muni sennilega alltaf eiga sér stað öðru hvoru þá er mikilvægt að við reynum að læra sem mest af því sem miður fer, bæði hvernig við getum komið í veg fyrir að það gerist aftur en einnig að sjá möguleikana sem í þeim felast til að fræðast enn betur um jörðina okkar.