climate-change

Við viljum vonandi öll leggja eitthvað á vogarskálarnar til að tryggja það að markmiðum t.d. Parísarsáttmálans verði náð, að koma í veg fyrir að hlýnun jarðar verði meiri en tvær gráður til viðbótar. En hvernig er best að koma því við? Samkvæmt grein vísindafólks við háskólann í Lundi og British Columbia sem var birt í Environmental Research Letters fyrr í vikunni, er ýmislegt sem við getum gert betur.

Í greininni taka þau saman 39 rannsóknir sem birtar hafa verið í ritrýndum tímaritum og skilgreina hvaða þættir hafa mest áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda. Þó almenningur sjá kannski helst hvatningu til að flokka rusl og spara rafmagn þá er það ekki endilega það sem telur mest þegar kemur að gróðurhúsalofttegundum.

Það er aðallega einn hlutur sem skipir mestu máli, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan sem fengin er að láni úr téðri grein, það er að eignast færri börn. Það er í raun auðvelt reikningsdæmi, fleira fólk þýðir meiri neysla sem gefur af sér aukningu í gróðurhúsalofttegundum. Þar að auki er ýmislegt sem fylgir ungu fólki sem er alls ekki umhverfisvænt eins og t.d. einnota bleyjur, sem reyndar má forðast, en einnig aukinn þvottur og svo framvegis.

Mynd frá Wynes and Nicholas, 2017
Mynd frá Wynes and Nicholas, 2017

Næst á eftir tíðni barneigna telja vísindahóparnir að bíllaus lífstíll hafi mest áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda, þar á eftir er minni notkun á flugvélum og svo aukin notkun á hreinni orku. Það er ekki fyrr en komið er niður á níunda og ellefta atriði listans sem endurvinnsla og sparperur eru nefndar.

Annað sem mætti nefna sem getur haft áhrif á kolefnisfótsporið okkar er að gerast grænmetisæta eða vegan, en það nær sjöunda sæti á listanum. Ef bíllaus lífstíll passar alls ekki inní mynstrið, þá er það að vera á sparneytnum bílum líka mjög mikilvægt, en það er talið upp númer fimm í röðinni. Strax á eftir því, númer sex er að skipta úr rafmagnsbíl í engan bíl.

Það er alveg þess virði að rýna vel í þessa mynd sem vísindahóparnir mála hér upp fyrir okkur. Því þó það sé auðvitað mjög mikilvægt að stjórnvöld taki sig til og setji línurnar þá er ekki endalaust hægt að bíða eftir því þunga batteríi því jörðin heldur bara áfram að hlýna.

Auðvitað geta ekki allir fylgt þessum lista í einu og öllu en það er alltaf hægt að byrja með litlum skrefum. Til dæmis, í góðæri eins og ríkir á Íslandi í dag, væri hægt að draga úr flugferðum um eina á ári. Kannski væri hægt að fækka bílunum um eins og einn á heimili eða reyna að sameina sem mest í bílana eða bara prófa að hjóla í vinnuna. Um leið og við tökum fyrsta skrefið þá verður næsta skref auðveldara og þannig getum við öll hjálpast að við að passa uppá jörðina okkar.