Mynd: Guide to Iceland (Tómas F. Kristjánsson)
Mynd: Guide to Iceland (Tómas F. Kristjánsson)

Það muna sennilega allir Íslendingar eftir því þegar mörg þúsund tonn af síld drápust í Kolgrafafirði í kringum áramótin 2012-13. Magn síldar sem drapst á þessum tíma nemur að því er talið er 50.000 tonnum af síld. Hluta af síldinni var mokað upp en stór hluti hennar eða um 20.000 tonn urðu eftir á sjávarbotni í firðinum. Enn er ekki vitað hvað olli síldardauðanum en áhrif síldardauðans á lífríkið eru ekki síður mikilvæg spurning. Það sem eftir varð af síld brotnaði niður í sjónum og þegar slíkt magn af lífrænum efnum losna útí vistkerifð á svo skömmum tíma breytast aðstæður þar mjög snögglega. Valtýr Sigurðsson fjallaði á nýliðinni Líffræðiráðstefnu um meistaraverkefni sitt sem snerist einmitt um að meta áhrif síldardauðans á líffræðilegan fjölbreytileika í firðinum.

Í verkefninu var botnssýnum safnað úr firðinum nokkrum mánuðum eftir síldardauðann. Sýnin voru síðan skoðuð með tilliti til þess hversu margar lífverur var þar að finna og af hvaða tegundum þær voru. Niðurstöðurnar voru svo bornar saman við niðurstöður sambærilegrar rannsóknar sem Agnar Ingólfsson vann í Kolgrafarfirði árið 1999, vegna mats á umhverfisáhrifum vegna þverunar Kolgrafafjarðar.

Í ljós kom að líffræðilegur fjölbreytileiki hafði breyst töluvert frá því sem hann var árið 1999. Ein tegund var nánast alls ráðandi í viskerfinu, en það var burstaormurinn Capitella capitata, hann fannst í einu eintaki í firðinum árið 1999 en árið 2013 taldi hann um 88% einstaklinga sem fundust í firðinum. Capitella capitata er þekktur fyrir að þola mikla mengun og því kannski ekki að undra að hann skuli ná góðri fótfestu við aðstæður sem þessar. Ormurinn þrífst í súrefnisfirrtum aðstæðum sem oft myndast vegna rotnandi lífmassa. Mikið dró úr tegundafjölbreytni og nokkrar tegundir sem fundust í Kolgrafafirði árið 1999 á borð við samlokur (Bivalvia), ánar (Oligochaeta), krabbadýr (Malacostraca) og skrápdýr (Echinodermata) annað hvort hurfu með öllu eða fækkaði verulega milli rannsókna.

Fleiri sýni hafa verið tekin úr firðinum síðan þessi rannsókn var unnin, árin 2014 og 2015, og stefnt er að því að fylgja eftir framvindu vistkerfisins til að meta hversu langan tíma það tekur vistkerfið að jafna sig og hvort áhrifin verða að einhverju leiti varanleg.