Mynd: Kenneth Balcomb Center for whale research
Mynd: Kenneth Balcomb Center for whale research

Þegar konur hætta að vera frjóar fer líkami þeirra í gegnum breytingar þar sem hormónastarfsemin skiptir um gír. Í stuttu máli er líkaminn hættur að undirbúa sig undir meðgöngu í hverjum tíðarhring. Samhliða því breytist taktur líkamans og á meðan nýr taktur er að taka við getur orðið misræmi og skörun milli milli hormóna og annarra boðefna sem leiðir til þess sem kallast breytingaskeið.

Margir hafa leitt að því líkur að breytingaskeiðið og ófrjósemin sem því fylgi sé í raun fylgikvilli þess hversu háum aldri við náum. En af hverju ætti náttúran ekki að halda í frjósemina svo lengi sem einstaklingurinn er á lífi? Svarið við þessu er mögulega að finna í háhyrningum.

Það vill þannig til að menn og háhyrningar eru tvær af mjög fáum lífverum sem fara á breytingaskeið. Háhyrningar geta náð allt að 90 ára aldri en kýrnar eru þó aðeins frjóar til fertugs. Í rannsókn frá University of Exeter var fylgst með háhyrningahjörðum í því skyni að skilgreina tilgang ófrjósemi eldri hvala.

Afkvæmi eldri kúa áttu erfiðara með að komast á legg en afkvæmi þeirra sem yngri voru. Ástæðu þess má að öllum líkindum rekja til samfélagslegrar uppbyggingu hjarðanna. Í hjörðunum sér hver einstaklingur um sig og sýna nánustu, þ.e. ættingja sína. Þess vegna hugsa eldri kýr ekki bara um sín eigin afkvæmi heldur einnig afkvæmi þeirra. Þetta á ekki við um yngri kýr, en þær dreifa sinni athygli eingöngu til sinna eigin afkvæma.

Eldri kýr eru því líklegri til að deila fæðu meðal stærri hópa afkvæma þannig að hver og einn fær minna. Af þessu leiðir að kálfar sem fæðast á sama tíma og afkvæmi systkina þeirra fá að öllum líkingum minna að éta. Það má því segja að orku eldri kúa sé betur varið í að hugsa um hjörðina heldur en í einstaka afkvæmi.

Hér skal ekkert fullyrt um hvort svipaðar ástæður liggi á bak við breytingaskeið mannskepnunnar. Það er þó ljóst að ömmur og afar gegna afskaplega mikilvægi samfélagslegu hlutverki í nútímasamfélagi sem á margan hátt líkist því hlutverki sem háhyrningaömmur gegna.