screen-shot-2016-10-24-at-22-01-40
Kettir hafa fylgt manninum í þúsundir ára og eru líkt og allir vita vinsæl gæludýr. Auk þess eru þeir klók rándýr og hefur lausaganga þeirra því óhjákvæmilega áhrif á lífríkið í kringum þá.

Til þess að reyna að meta hversu mikil áhrif kettir hafa í raun og veru ákváðu vísindamenn við Wildlife Center of Virginia að greina innlagnir særðra dýra á einskonar bráðamóttöku samtakanna á árunum 2000 til 2010. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Journal of Wildlife Management.

Í ljós kom að kettir á svæðinu voru ansi duglegir veiðimenn og höfðu veitt í það minnsta 80 mismunandi tegundir. Um 15% spendýra sem lögð voru inn og 14% fugla voru þangað komin vegna árása heimilskatta. Af þeim spendýrum sem lögð voru inn var 71% sem dó í kjölfarið á meðan 81% fugla hlaut sömu örlög. Kettirnir virtust líklegri til að ráðast á fullvaxta fugla en unga en því var öfugt farið með spendýr, þar sem ungviðið var vinsælli bráð en fullorðnir einstaklingar.

En hvað er til ráða? Því miður er erfitt að sporna gegn því að kettir hegði sér líkt og þeim er eðlislægt. Fái heimiliskettir að ganga lausir er þó hægt að reyna að takmarka skaðann með því að láta kettina bera bjöllu svo bráðin fái í það minnsta örlítið forskot.