Mynd: Orkuveita Reykjavíkur
Mynd: Orkuveita Reykjavíkur

Þeir sem hafa fylgst með fréttaflutningi nýlega hafa varla farið varhuga af ástandinu við skólpdælustöð sem staðsett er við Faxaskjól í Reykjavík. Allt virðist í háaloft vegna þess að skólp borgarbúa, eða a.m.k. hluta þeirra, hefur haft greiðan aðgang útí nærliggjandi sjó. En hvers vegna er það slæmt?

Skólp er m.a. úrgangurinn sem við sturtum niður í klósettið, þ.e. saur, hland og klósettpappír. Í skólpinu lifa ógrynni baktería sem við myndum aldrei vilja hafa nálægt okkur í daglegu lífi. Meðal þeirra er baktería sem kallast E. coli, (stundum nefndur saur-kólí eða saurgerill). Þessi baktería finnst m.a. í saur og er það næg ástæða til að við viljum ekki hafa hana í neinum neysluvörum.

E. coli er ekki eingöngu bundin við saur, en bakterían er samt sem áður góð og mikið notuð vísbending um mengun í t.a.m. neysluvatni eða sjó. Þess vegna eru til ákveðin viðmið um hversu mikið má vera til staðar af E. coli í vatni sem er notað af fólki, til drykkjar eða baða. Í sjó, sem notaður er til baða, má fjöldi E. coli baktería á hverja 100 mL vera 250 E. coli bakteríur. Með öðrum orðum, þegar 100 mL af sjó er dreift á bakteríuæti á föstu formi, mega myndast 250 kólóníur án þess að sýnið teljist yfir viðmiðunarmörkum.

Ef sýnið reynist yfir viðmiðunarmörkum er hætta á að sýklar, ásamt E. coli, fyrirfinnist á svæðinu. Sýklarnir geta átt greiða leið inní líkama fólks sem t.d. er að synda eða baða sig í sjónum. Sýklarnir geta komist inn fyrir varnir líkamans í gegnum sár eða mögulega ef viðkomandi gleypir óvart vatn á meðan á æfingunni stendur, en það er reyndar alls ekki ólíklegur atburður.

En áhættan er ekki einungis bundin við fólk. Við berum líka ábyrgð á að halda náttúrunni í þokkalegu standi og til þess eru skólphreinsunarstöðvar í fjölmennum byggðum. Hlutverk hreinsistöðvanna er að hreinsa skólpið og dæla því svo langt útí haf þar sem það er nýtt sem næringarefni. Skólpinu er dælt lengst útí haf vegna þess að þar er sjórinn dýpri og meiri straumar, þ.a. skólpið verður hlutfallslega minni partur af heildarrúmmálinu.

Þó skólpið sé stútfullt af næringarefnum fyrir lífríkið þá viljum við ekki hafa það í of miklu magni í litlu rúmmáli. Lífríkið getur í fyrsta lagi verið viðkvæmt fyrir bakteríum sem þar finnast en að auki getur orðið auðgun á ákveðnum tegundum, t.d. bakteríu- eða þörungategundum, sem leiðir til einsleitni í vistkerfinu. Til að viðhalda heilbrigði vistkerfisins megum við því ekki menga það með of mikilli næringu.

Vandamálið við bilaðar skólpdælur er því ekki bara vond lykt við sjávarsíðuna heldur liggur heilbrigði sjávarins þarna undir. Heilbrigði sjávarins er bæði mælikvarði á hvernig lífríkinu þar reiðir af en einnig hvort okkur mannfólkinu er óhætt að synda í sjónum eða nýta svæðið til annarra leikja.

„Ljósi punkturinn“ við bilaðar dælur er kannski sú staðreynd að fjörurnar virðast nú vera að fyllast af rusli, sem á alls ekki heima í skólpi. Það er jákvætt að því leiti að að er auðveldara að týna ruslið úr fjörunni og henda því en að ná í það útí sjó. En vonandi verður þessi fréttaflutningur til þess að við förum öll að hugsa okkur betur um hverju við ætlum að sturta niður. Hér er hægt að rifja upp hverju á EKKI að sturta niður.