screen-shot-2017-03-20-at-19-55-37

Við matvælaframleiðslu þarf að nota heilan helling af vatni á ýmsum stigum framleiðslunnar. Til dæmis þurfa plöntur mismikið vatn til að dafna vel og húsdýr þurfa að drekka. Við erum sífellt að verða meðvitaðri um það hvaða umhverfisáhrif fæðan okkar hefur og er vatnsnotkun einn liður í umhverfisáhrifum, sér í lagi þegar um innflutta fæðu er að ræða. Vefsíðan Popular Science tók nýlega saman lista þar sem nokkrar algengar fæðutegundir eru bornar saman og vatnsnotkun þeirra á hverjar 100 hitaeiningar listaður.


Brokkólí: 10 lítrar á hverjar 100 hitaeiningar

Brokkólí er grænmeti sem þarf fremur lítið vatn til að vaxa og dafna. Hlutfall vatnsnotkunar á móti hitaeiningum er því mjög lágt.

Kjúklingur: 180 lítrar á hverjar 100 hitaeiningar
Kjúklingur er í miklu uppáhaldi hjá mörgum en líkt og önnur dýr þurfa kjúklingar að drekka til að lifa. Auk þess fer nokkur vatnsnotkun í að rækta fóðrið sem fuglarnir éta.

Epli: 170 lítrar á hverjar 100 hitaeiningar
Á hverjar 100 hitaeiningar fara álíka margir lítrar af vatni og í kjúlingarrækt sem skýrist af því að talsvert minni orku er að finna í eplum en kjúklingi.

Hveiti: 55 lítrar á hverjar 100 hitaeiningar
Almennt séð vex hveiti á vorin og á haustin en auk þess hafa plönturnar djúpt og gott rótakerfi og er lítil þörf á því að vökva þær umfram það regn sem fellur á þær.

Krybbur: 0,089 lítrar á hverjar 100 hitaeiningar
Af og til birtast okkur fréttir um að krybbur ættu að vera meira á matseðli okkar Vesturlandabúa en raun ber vitni. Það er ekki að ástæðulausu enda eru þær ódýrar í framleiðslu, þarfnast afar lítils vatns og verða fullvaxta á aðeins sex vikum.

Nautasteik: 1.000 lítrar á hverjar 100 hitaeiningar
Nautgripir þurfa ekki aðeins að éta mikið til að halda sér gangandi heldur drekka þeir einnig afar mikið vatn.

Hrísgrjón: 190 lítrar á hverjar 100 hitaeiningar
Hrísgrjón þurfa töluvert meira vatn en almennt er fyrir nytjaplöntur því plönturnar vaxa hreinlega í vatni alla þá sjö mánuði áður en þeim er safnað.

Möndlur: 59 lítrar á hverjar 100 hitaeiningar
Möndlutré þafnast mikils vatns þegar sumarið gengur yfir en vegna þess hversu hitaeiningaríkar þær eru er hlutfallið fremur lágt.

Kartöflur: 38 lítrar á hverjar 100 hitaeiningar
Kartöflur eru nokkuð hagkvæmar þegar kemur að vatnsnotkun enda þurfa þær einna helst á vatni að halda á fyrstu stigum ræktunarinnar.

Maís: 33 lítrar á hverjar 100 hitaeiningar
Það tekur maís um fjóra mánuði að ná fullum þroska og á þeim tíma þurfa plönturnar um 60 cm af vatni. Mikill hluti þess vatns er nýtt á síðustu vikum vaxtarins.