Mengun í borgum og bæjum getur haft mikil áhrif á heilsufar íbúa þeirra og deyja um 6,5 milljónir manna ár hvert vegna loftmengunar. Til að vekja athygli á þessum mikla vanda hafa Alþjóðaheilbrigðisstofnun og Sameinuðu þjóðirnar sett af stað herferð undir nafninu BreathLife.

Á vefsíðu herferðarinnar er hægt að setja inn nafn á borg eða bæ og sjá hversu mikla loftmengun er þar að finna. Þannig er hægt að sjá að Reykjavík er 10% yfir loftmengunarmörkum Alþjóðaheilbrigðisstofnunar og að rekja megi 21 dauðsfall á ári til sjúkdóma tengdum menguninni á landinu. Akureyri er aftur á móti 20% fyrir neðan mörkin, London 50% yfir mörkum og Kaupmannahöfn 10% yfir mörkum.