Mynd: Youtube - Tornado channel
Mynd: Youtube – Tornado channel

Síðastliðin ár hefur veðurfar á Íslandi ekki alltaf verið alveg eftir bókinni, a.m.k. telja margir sig vera að upplifa annars konar veðurfar í dag en fyrir nokkrum tugum ára. Þetta er því miður ekki einskorðað við Ísland en svo virðist sem veðurfar alls staðar á jörðinni gæti verið að breyta um takt.

Í rannsókn sem birt var árið 2014 í vísindatímaritinu Nature Communications eru birtar niðurstöður þar sem sýnt er fram á fjölgun hvirfilbylja í Bandaríkjunum frá árinu 1954-2014. Ekki nóg með að hvirfilbyljunum fjölgar hratt heldur virðast þeir einnig vera stærri og skæðari eftir því sem nær dregur samtímanum.

Sami hópur birti svo í ár aðra grein í vísindaritinu Science þar sem birt eru gögn sem sýna fram á nokkuð sem vakti mikla furðu vísindahópsins. Fjölgun hvirfilbyljana og aukinn styrkur þeirra virðist ekki vera í takti við áhrif hlýnunar jarðar. Þ.e.a.s. hvirfilbylirnir stækka og fjölgar meira en talið var vegna áhrifa hlýnunnar jarðar.

Ekki er enn vitað hvers vegna veðurbreytingarnar eru svona skæðar og örar. Michael Tippett sem leiddi rannsóknarhópinn bendir á að mögulega séu aðrir þættir að verki en hlýnun jarðar en einnig er möguleiki að afleiðingar hlýnunarinnar séu bara ekki nægilega vel þekktar og við séum því að horfa uppá verri útkomu en við gerðum ráð fyrir.

Niðurstöður sem þessar minna okkur enn eina ferðina á að leggja okkar á vogarskálarnar til að fara vel með jörðina okkar. Eru ekki örugglega allir farnir að flokka ruslið sitt?