p034f2xs

Hvíháfar eru vafalaust þekktasta tegund hákarla í heiminum, meðal annars þökk sér kvikmynda á borð við Jaws. Vísindamenn eiga þó margt eftir ólært um tegundina og varpa niðurstöður nýbirtrar rannsóknar ljósi á áður óþekkta hegðun hákarlanna.

Vísindamenn merktu 32 hvítháfa á árunum 2009 til 2014 með gervitunglamerkimerkjum sem mældu dýpi, hitastig sjávar og ljósmagn á 10-15 sekúndna fresti í 122 til 308 daga. Að þeim tíma loknum losnuðu merkin af dýrinu og sendu gögnin í gegnum gervitungl þaðan sem vísindamennirnir gátu unnið úr þeim.

Hvítháfarnir voru merktir við Cape Cod, nærri Massachusets fylki Bandaríkjanna, en reyndust ferðast töluvert langt frá merkingastaðnum. Sumir hákarlanna syntu allt að 3.701 kílómetra að Azor eyjum sem tilheyra Portúgal. Að auki köfuðu hákarlarnir niður á allt að 1.127 metra dýpi og eyddu meiri tíma á miklu dýpi en fyrri rannsóknir hafa sýnt.

Að sögn Gregory Skomal, fyrsta höfundar greinarinnar, höfðu niðurstöður fyrri rannsókna gefið til kynna að hvítháfar í Atlantshafinu héldu sig að miklu leyti nærri strandlínunni og syntu aðallega til norðurs og suðurs. Þessi rannsókn sýndi aftur á móti fram á að þeir geti einnig ferðast töluvert langt til austurs.

Ólöglegt er að veiða hvítháfa í hafsvæðum í lögsögu Bandaríkjanna en þessar niðurstöður sýna að hákarlarnir yfirgefa þau hafsvæði og geta þeir því átt á hættu að vera veiddir utan bandarískrar lögsögu þar sem aðrar reglur gilda. Skomal hvetur því til þess að þau lönd sem stunda veiðar á þessum nýfundnu heimkynnum hvítháfanna ræði þann möguleika að vernda tegundina þar líka.

Hvað ástæðuna fyrir þessum löngu ferðalögum austur varðar virðast ungir hákarlar að mestu halda sig nærri ströndum og ferðast til suðurs á veturnar en norður yfir sumartímann. Eldri hvítháfar séu hinsvera líklegri til að hætta sér út í úthafið.

Skiptar skoðanir eru á því hver ástæðan fyrir þessum ferðalögum er, rannsóknarhópur í Kaliforníu sem ekki var tengdur rannsókninni, telur að ástæðan gæti verið tengd mökun, atferli sem enn er óþekkt. Skomal og rannsóknarhópur hans telur þó fremur að um sé að ræða ætisleit en óljóst sé hvaða æti það sé sem hvíháfarnir séu að sækjast í.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Marine Ecology Process Series.