Mynd: Wiki-Reef
Mynd: Wiki-Reef

Kóralrif víðsvegar um heiminn eiga undir högg að sækja vegna hinnar alræmdu hnattrænnu hlýnunar. Nú er svo komið að allt bendir til þess að ekki verður komist hjá frekari hlýnun, hvað sem að verður gert, og margir vísindahópar beina sjónum sínum að því hvaða áhrif þessar umbreytingar munu hafa á lífríki jarðar. Með meiri þekkingu höfum við mögulega meiri von um að bjarga einhverju.

Ein slík rannsókn var birt í vísindaritinu Coral Reefs í þessum mánuði. Rannsóknin sem framkvæmd er við Queensland University of Technology í Ástralíu snýr að fremur harðgerði tegund kórals sem kallast Heliofungia actiniformis og er af sveppaætt. Kórallinn lifir í samlífi með þörungum, en saman deila þessar tegundir næringarefnum og öðrum umhverfisþáttum sem hjálpa þeim að lifa af.

Í rannsókninni er hermt eftir hitabreytingum sjávar með því að hækka hitastig í umhverfi kóralsins um 8°C (frá 26-32°C) á 12 klukkustundum. Hitastigið helst síðan óbreytt í átta daga. Við þetta verður kórallinn stressaður og spýtir þörungunum af sér þannig tapar kórallinn lit sínum og verður að lokum hvítur.

Þessar niðurstöður náðust á ótrúlega flott myndband sem má sjá hér að neðan.

Því miður mun sambærileg hvíttun fleiri kóralla verða raunin þegar sjórinn heldur áfram að hlýna en með rannsóknum á borð við þessa er möguleiki að við getum áttað okkur betur á því hvaða umhverfisþætti tegundirnar þurfa til að viðhalda samlífi sínu.